Áin var mórauð þegar hleypt var úr lóninu. Aurinn safnaðist svo fyrir í veiðistöðum neðar í ánni. Ljósm. gb.

Líkur taldar á að meiriháttar tjón hafi verið unnið á lífríki Andakílsár

Útlit er fyrir að Orka náttúrunnar, eigandi Andakílsvirkjunar, hafi unnið stórtjón á lífríki Andakílsár fyrr í þessari viku þegar hleypt var gríðarlegu magni af aur og uppsöfnuðum setlögum úr uppistöðulóni ofan virkjunarinnar og niður í ána. Eðlilegt hefði verið að mokað hefði verið upp úr lóninu og efninu ekið burtu, en það var ekki gert. Eigendur veiðiréttar neðan virkjunar óttast að lífríki árinnar hafi skaðast þegar á að giska tíu þúsund rúmmetrum af aur var hleypt niður í ána. Áætlað er að seiði hafi drepist og flestir af bestu veiðistöðum í ánni eru fullir. Þessi skaði gæti þýtt að mörg ár taki að koma seiðabúskap árinnar á rétt ról að nýju og í versta falli glatast náttúrulegi stofn árinnar. Nú standa leirhryggir uppúr ánni þar sem áður voru fengsælir veiðistaðir.

„Staðan var sú að lítið inntakslón ofan virkjunarinnar var að fyllast af leir. Við höfum hleypt úr því reglubundið en nú þurfti að tæma það. Meira set barst því niður í farveginn en alla jafna. Við erum að meta stöðuna með veiðimálasérfræðingum og leita leiða til að flýta því að þetta skolist fram,“ segir Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orku náttúrunnar sem svar við áhyggju íbúa við ána á umræðuvef á Facebook.

 

Stofn árinnar í raunverulegri hættu

Ragnhildur Helga Jónsdóttir í Ausu er í stjórn veiðifélags Andakílsár. Hún segir að Orka náttúrunnar hafi ætlað að fara í framkvæmdir við stíflugarð lónsins í vetur og láta moka upp úr lóninu. Það verk hafi hins vegar dregist og að lokum verið ákveðið að tæma lónið til að meta ástand garðsins. Þegar hins vegar vatnið hafi farið að grafa sig niður í botn á lóninu hafi áin borið með sér þúsundir rúmmetra af seti. Á augabragði hafi áin orðið dökkmórauð eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af fossinum. Þetta er viðkvæmasti tíminn og stutt er í að veiðitímabilið hefjist, eða réttur mánuður. Ragnhildur Helga í Austu segir að veruleg hætta sé á að náttúruleg seiði í uppeldi hafi drepist og þá eru næstu fjögur ár ónýt,“ segir Ragnhildur. „Hins vegar ef við náum ekki erfðaefni sem kemur úr sjó í sumar er raunverulega hætta á að hinn gamli stofn árinnar sé hruninn. Það tjón væri óbætanlegt. Við erum ekki nú með seiði í uppeldi neinsstaðar. Eina erfðaefnið sem er eftir er úr stofnininum er sá fiskur sem kemur úr hafi í sumar, ef hann kemur,“ segir Ragnhildur Helga. Hún bæti við að þegar skýrsla fiskifræðinga liggi fyrir muni veiðifélagið fá lögfræðing til að gæta hagsmuna veiðiréttarhafa gagnvart Orku náttúrunnar. Það er Stangveiðifélag Reykjavíkur sem hefur Andakílsá á leigu og samkvæmt upplýsingum Ragnhildar Helgu var búið að selja flestöll veiðileyfi sumarsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira