Í lok fundar stýrði Magnús Scheving nokkrum létum æfingum.

Borgarbyggð verður þrettánda heilsueflandi samfélagið

Í gærkvöldi var haldinn fjölmennur íbúafundur í Hjálmakletti í Borgarnesi þar sem til umfjöllunar var heilsuefling. Skrifað var undir samning þess efnis að Borgarbyggð verður 13. sveitarfélagið hér á landi til að verða Heilsueflandi samfélag. Áður en ritað var undir samkomulag þess efnis voru haldin þrjú áhugaverð erindi. Íris Grönfeldt íþróttafræðingur fór yfir hvað Borgarbyggð hefur upp á að bjóða sem styður við heilsueflingu. Í ljós kom að framboð í formi húsnæðis, íþróttfélaga og klúbba er meira en margir gerðu sér grein fyrir. Þá flutti Magnús Scheving erindi um heilsueflingu og er óhætt að segja að hann „átti salinn.“ Gestir voru á einu máli um hversu skemmtilegur hann var. Héðinn Svarfdal Björnsson frá embætti landlæknis hélt einnig erindi og ritaði að því búnu undir samkomulag við sveitarfélagið um Heilsueflandi samfélag fyrir hönd landlæknis. Að lokum var hreyfivika UMFÍ kynnt af Sabínu Steinunni Halldórsdóttur. Dagskrá lauk síðan með hópastarfi þar sem íbúum gafst kostur á að leggja sitt til málanna.

Fjallað verður um fundinn í Skessuhorni í næstu viku.

Héðinn Svarfdal og Björn Bjarki Þorsteinsson undirrituðu samninginn. Hann vottuðu síðan Magnús Scheving og Íris Grönfeldt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir