Víkingar kræktu í fyrstu stig sumarsins á útivelli í Grindavík. Hér er svipmynd úr síðasta leik liðsins, gegn KR í síðustu umferð. Ljósm. af.

Víkingar sigruðu Grindavík örugglega

Víkingur Ó. krækti í fyrstu stig sumarsins í Pepsi deild karla þegar liðið sigraði nýliða Grindavíkur 1-3 í þriðju umferð mótsins í gærkvöldi. Leikurinn fór fram í Grindavík.

Jafnt var á með liðunum og mikil barátta einkenndi fyrri hálfleikinn. Vindurinn var leikmönnum nokkuð erfiður í fyrri hálfleik, en töluvert rok var í Grindavík í gær. Lítið var um færi og hvorugu liðinu tókst að ógna marki hins að einhverju ráði. Staðan í hálfleik var því markalaus en það átti eftir að breytast.

Strax á upphafsmínútu síðari hálfleiks komust Ólsarar yfir. Víkingar fengu hornspyrnu sem Alonso Sanchez tók. Hann sendi boltann fyrir markið, beint á kollinn á Guðmundi Steini Hafsteinssyni sem skoraði með góðum skalla. Fimm mínútum síðar fékk Víkingur aðra hornspyrnu og aftur var það Alonso sem gaf fyrir markið. Eftir nokkuð klafs í teignum náði Kenan Turudija skoti á markið sem söng í netinu. Víkingar komnir í 2-0 en heimamenn ekki enn mættir til leiks í síðari hálfleik.

Eftir markið róaðist leikurinn aðeins en eftir því sem leið á síðari hálfleik fóru Grindvíkingar aðeins að komast meira og meira inn í leikinn. Þeim tókst hins vegar ekki að skapa sér nein almennileg færi. Aðgerðir þeirra voru ekki nógu markvissar og runnu út í sandinn.

Endasprettur leiksins var síðan Víkinga. Litlu munaði að Guðmundur Steinn kæmist einn í gegn eftir sendingu frá Þorsteini Má Ragnarssyni en fyrsta snertingin sveik hann. Skömmu síðar, á 81. mínútu, skoruðu Víkingar þriðja mark leiksins og innsigluðu sigurinn. Þorsteinn Már fékk frábæra sendingu inn fyrir vörn Grindvíkinga, stakk af varnarmann og kláraði færið af miklu öryggi.

Aðeins mínútu síðar misstu Víkingar mann af velli þegar Kwame Quee fékk að líta sitt annað gula spjald. Kwame gekk til liðs við liðið fyrir helgi í síðustu viku og fyrsti leikur hans fyrir Víking fékk skjótan endi.

Heimamenn náðu að klóra í bakkann á lokamínútu leiksins. William Daniels átti góðan sprett upp hægri kantinn, sendi fyrir á Juan Jimenez sem skoraði og minnkaði muninn í 1-3.

Urðu það lokatölur leiksins og kræktu Víkingar þar með í fyrstu stig sín í deildinni í sumar. Víkingur Ó. er í 9. sæti deildarinnar með þrjú stig, jafn mörg og nafnar þeirra í Víkingi R. í sætinu fyrir neðan en stigi á eftir hópi liða um miðbik deildarinnar. Næst leika Ólsarar sunnudaginn 21. maí næstkomandi þegar þeir mæta ÍBV á Ólafsvíkurvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir