Myndlistamaðurinn Brynjar Mar með pensil í hönd. Á vinnuborðinu fyrir framan hann má sjá nokkur af verkum hans. Ljósm. kgk.

Sólarlag er fyrsta myndlistarsýning Brynjars Mars

Brynjar Mar Guðmundsson, ungur listamaður á Akranesi, opnar sína fyrstu myndlistarsýningu í Galleríi Bjarna Þórs á morgun, laugardaginn 22. apríl kl. 14:00. Sýningin ber heitið Sólarlag og tileinkar Brynjar hana ömmu sinni, Brynju Einarsdóttur. „Ég er skírður í höfuðið á henni og það var hún sem kveikti áhuga minn fyrir listinni. Hún rétti mér blað og blýant, liti og litabækur þegar mig vantaði eitthvað að gera þegar ég var lítill strákur. Það er henni að þakka að ég hef verið að teikna og mála alveg frá því ég gat fyrst haldið á blýanti,“ segir Brynjar í samtali við Skessuhorn. Nafn sýningarinnar er jafnframt sótt í smiðju Brynju, en hún gaf út ljóðabók með sama nafni fyrir nokkrum árum. Hún lést á síðasta ári. „Amma dó í fyrra, en við vorum mjög náin. Upp frá því byrjaði ég að mála vatnslitamyndir í abstrakt súrrealískum stíl og hef meðal annars sótt innblástur í ljóðabókina hennar. Ég ákvað því að láta sýninguna heita Sólarlag, eins og ljóðabókina og tileinka hana ömmu minni, sem á heiðurinn af því að ég fór að teikna og mála. Þessar myndir hefðu líka höfðað til hennar, abstrakt súrrealískar myndir eru eitthvað sem hún kunni vel að meta,“ segir hann.

Nánar er rætt við Brynjar Mar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir