Útsvarslið Akraness. F.v. Örn Arnarson, Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir og Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir. Ljósm. RÚV.

Akranes í undanúrslit Útsvars

Akranes tryggði sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum spurningaþáttarins Útsvars, sem sýndur er á RÚV. Skagamenn lögðu Kópavogsbúa í æsispennandi keppni með 56 stigum gegn 53. Liðin voru jöfn lengst framan af þættinum en þegar komið var að orðaleiknum náðu Skagamenn afgerandi forskoti. Þar sóttu þeir 14 stig gegn aðeins fimm stigum Kópavogsbúa. En liðsmenn Kópavogs voru hvergi af baki dottnir og með góðri frammistöðu í valflokkaspurningunum tókst þeim að minnka muninn fyrir síðasta hluta keppninnar, stóru spurnigarnar. Þar voru sviptingar miklar og þegar aðeins átti eftir að bera fram eina spurningu leiddi Kópavogur með tveimur stigum. Skagamenn áttu hins vegar síðustu spurninguna og ákváðu að hafa hana fimm stiga. Henni svöruðu þeir rétt og tryggðu sér þriggja stiga sigur og sæti í undanúrslitum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir