Hér standa við nýja tölvustýrða fræsarann; Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari, Hörður Baldvinsson og fjórir af þeim nemendum sem verða í hópi fyrstu nemendanna sem læra á nýja tækið í haust. F.v. Gunnar, Sólveig, Siggi og Helga.

Nýr tækjakostur í málmiðnadeild FVA

Þessa dagana er unnið við uppsetningu á nýjum tölvustýrðum fræsara í málmiðnadeild Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Tæki þetta er af gerðinni HAAS, TM-1P og er afar fullkominn fræsari sem býður upp á mikla möguleika í framleiðslu ólíkra hluta úr málmi. Með fylgihlutum er áætlað að tækið kosti um tíu milljónir króna. Hörður Baldvinsson deildarstjóri málmiðnadeildar FVA fagnar mjög komu nýja tölvufræsarans og segir hann nánast jafngilda byltingu í tækjakosti deildarinnar. Þá segir hann að einnig hafi verið ákveðið að kaupa nýjan tölvustýrðan rennibekk en þessi tvö tæki eru forsenda nútíma verkþjálfunar í málmtækni. Eldri tækjakostur skólans er mjög kominn til ára sinna. Bæði þessi tæki verða tilbúin fyrir upphaf kennslu næsta haust.

Góður fjöldi nemenda stundar nú nám í dagskóla málmiðnadeildar FVA en mest er þó aðsóknin í kvöldskóla deildarinnar þar sem 35 stunda nú nám. Fullt er í þann hluta námsins og færri hafa komist að en vildu. Hörður segir að margir þeirra sem stunda nú nám í kvöldskóla FVA séu á einhvers konar tímamótum í lífinu. Hafi t.d. innritaðs til náms eftir að hafa hætt í öðru námi eða séu þar í kjölfar raunfærnimats. Það byggi á að bæta við þekkingu og menntun til að öðlast réttindi. Þá er fólk með afar ólíkan bakgrunn að afla sér menntunar í kvöldskólanum. Aldursbilið er auk þess talsvert en elsti nemandinn nú er 55 ára.

Að sögn Ágústu Elínar Ingþórsdóttur skólameistara stendur til í sumar að mála og snyrta húsnæði málmiðnadeildar. „Það er hagur okkar allra að hér sé bjart og snyrtilegt og aðstaðan sem best. Við sjáum framá það með bættum tækjabúnaði, góðri aðstöðu og síðast en ekki síst góðu starfsfólki að aðsókn í iðnnámið hér muni aukast. Atvinnulífið kallar mjög á að fleiri hefji iðnnám og því er ég sannfærð um að það muni skila sér í aukinni aðsókn,“ segir Ágústa Elín. Hörður deildarstjóri bætir því við að ein af sérstöðum skólans sé persónulegt nám þar sem einstaklingar fái tækifæri óháð fyrri reynslu, menntun eða getu. „Við erum hér í málmiðnadeildinni með fólk með afar ólíkan bakgrunn; t.d. unga þriggja barna móður, fólk sem hefur orðið utanveltu í þjóðfélaginu að ýmsum ástæðum eða flosnað frá öðru námi. Hér fær fólk gott tækifæri til að sækja sér nám á nýju sviði og öðlast menntun sem eftirspurn er eftir í atvinnulífinu. Fjölmörg dæmi höfum við svo um fólk sem hefur blómstrað í kjölfarið úti í atvinnulífinu,“ segir Hörður Baldvinsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira