Dixon Oktettinn kom sá og sigraði

Fernir svæðistónleikar Nótunnar 2017, uppskeruhátíðar tónlistarskóla, fóru fram um síðustu helgi. Hátt í fimmhundruð nemendur frá tónlistarskólum af öllu landinu tóku þátt. Sjö framúrskarandi tónlistaratriði á hverjum svæðistónleikum fyrir sig fengu sérstakar viðurkenningar og verðlaunagrip Nótunnar. Þau atriði öðluðust jafnframt þátttökurétt á lokahátíð Nótunnar, þriðja og síðasta hluta uppskeruhátíðarinnar, sem verður haldin 2. apríl í Eldborgarsal Hörpu. Keppnin hér á Vesturlandi fór að þessu sinni fram í Tónbergi á Akranesi.

Um 40 flytjendur komu fram og voru atriðin frá Tónskóla Auðarskóla í Dölum, Tónlistarskólia Bolungarvíkur, Tónlistarskóla Snæfellsbæjar, Tónlistarskóla Stykkishólms, Tónlistarskóla Húnaþings vestra, Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarskólanum á Akranesi. Í valnefnd fyrir Vesturland sátu Birgir Þór Guðmundsson gítarleikari og sálfræðingur, Dóra Líndal Hjartardóttir tónmenntakennari og söngkona og Sveinn Arnar Sæmundsson organisti og kórstjóri.

Eftirtalin atriði voru valin í úrslitakeppni Nótunnar í Hörpu:

Dixon Oktettinn frá Tónlistarskólanum á Akranesi sem var skipaður söngvurunum Ara Jónssyni og Hjördísi Tinnu Pálmadóttur, Sigurði Jónatan Jóhannssyni á trompet, Eiði Andra Guðlaugssyni á saxófón, Huga Sigurðarsyni á rafbassa, Guðjóni Jósefi Baldurssyni á trommur og Guðjóni Snæ Magnússyni á rafgítar. Eðvarð Lárusson var hópnum til stuðnings og lék á píanó.

Mariann Rähni frá Tónlistarskóla Bolungarvíkur en hún lék á píanó.

Aron Ottó Jóhannsson söngvari frá Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir