Kristrún Sigurjónsdóttir lék einn besta leik sinn í vetur þegar Skallagrímur lagði Njarðvík. Ljósm. Skallagrímur/ Ómar Örn.

Skallagrímur kláraði Njarðvík í lokafjórðungnum

Skallagrímur tók á móti Njarðvík í næstsíðustu umferð Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik á föstudag. Skallagrímur lék án Tavelyn Tillman, sem var frá vegna meiðsla og Njarðvíkingar hafa þegar sent Cameron Tyson-Thomas heim, eins og körfuknattleiksáhugamenn þekkja. Nokkuð jafnræði var með liðunum lungann úr leiknum og það var ekki fyrr en í lokafjórðungnum að Skallagrímskonur náðu að slíta sig frá gestunum og sigla sigrinum heim. Þær höfðu að lokum 13 stiga sigur, 69-56 eftir stórgóðan lokasprett.

Njarðvíkurliðið mætti ákveðið til leiks og hafði yfirhöndina í fyrsta leikhluta. Skallagrímskonur voru þó aldrei langt undan og forysta gestanna aðeins tvö stig eftir upphafsfjórðunginn, 15-17. Snemma í öðrum leikhluta sneru Skallagrímskonur taflinu sér í vil. Þær komust nokkrum stigum yfir og héldu forskotinu allt til hálfleiks, en þá leiddu þær með sex stigum, 36-30.

Njarðvík jafnaði metin strax í upphafi síðari hálfleiks og hleypti mikilli spennu í leikinn. Jafnt var á öllum tölum næstu mínútur og liðin fylgdust að í öllum sínum aðgerðum, bæði staðráðin í því að gefa ekkert eftir. En Skallagrímskonur áttu lokaorðið í þriðja leikhluta, skoruðu tvær góðar körfur og komust fimm stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 49-44. Njarðvík reyndi að svara fyrir sig snemma í fjórða leikhluta. Þær minnkuðu muninn í tvö stig en Skallagrímur stóðst áhlaupið. Um miðjan leikhlutann tóku Skallagrímskonur síðan öll völd á vellinum, náðu tíu stiga forskoti og lögðu grunn að sigri sínum. Þær léku vel á lokamínútunum og hleyptu gestunum ekki inn í leikinn að nýju. Lokatölur í Borgarnesi voru 69-56, Skallagrími í vil.

Kristrún Sigurjónsdóttir átti stórleik í liði Skallagríms. Hún skoraði 29 stig og tók fimm fráköst. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir kom henni næst með tólf stig en aðrar höfðu minna.

Með sigrinum tryggði Skallagrímsliðið sér endanlega þriðja sætið í deildinni. Liðið hefur 38 stig þegar einn leikur er eftir, tveimur stigum meira en Stjarnan í sætinu fyrir neðan. Því er ljóst að Skallagrímur mætir Keflavík í fyrri umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn, en úrslitakeppnin hefst 28. mars næstkomandi. En í millitíðinni leikur Skallagrímur gegn Val á útivelli í lokaleik deildarinnar. Sá leikur fer fram á morgun, þriðjudaginn 21. mars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir