Efstu fimm í gæðingafiminni á föstudaginn. Ljósm. iss.

Samfelld sigurganga Leiknis/Skáneyjar í Vesturlandsdeildinni

Sigurganga liðs Leiknis/Skáneyjar hélt áfram í Vesturlandsdeildinni í hestaíþróttum en keppt var í gæðingafimi í Faxaborg á föstudaginn. Þetta var fjórða mótið í röð sem liðið hreppti liðsplattann fyrir bestan sameiginlegan árangur í grein kvöldsins. Nú leiða því Reykdælingar keppnina með yfirburðum og eru í dágóðri stöðu hvað framhaldið varðar nú þegar tvær keppnisgreinar eru eftir. Það var Haukur Bjarnason með Ísar frá Skáney sem hafði sigur í gæðingafiminni með 6,74 stig. Önnur varð unnusta hans Randi Holaker á Þyt með 6,69 stig og Siguroddur Pétursson þriðji með 6,61 stig. Í einstaklingskeppninni nægði þriðja sætið Siguroddi til að halda forustunni, en hann er nú með 25 stig. Jöfn í öðru sæti eru þau Haukur og Randi á Skáney með 24 stig en frændsystkinin Konráð Valur og Berglind á Laugarvöllum eru í sætunum þar á eftir.

Staðan í liðakeppninni er nú þessi:

  1. Leiknir/Skáney – 187,5 stig
  2. Berg/Hrísdalur – 153 stig
  3. Snókur/Cintamani – 109 stig
  4. Fasteignamiðstöðin – 96,5 stig
  5. Gufudalur/Arnbjörg/Söðulsholt – 90 stig
  6. KB/Fígaró/Mosi ehf. – 48 stig.
Líkar þetta

Fleiri fréttir