Auglýst verður eftir lítilli ferju sem flutt getur 50-200 farþega í ferð. Ferjan á þessari mynd tengist fréttinni ekki.

Borgarráð samþykkti að auglýsa ferjusiglingar til Akraness

Á fundi borgarráðs Reykjavíkur síðastliðinn fimmtudag var lagt fram bréf borgarstjóra þar sem óskað var eftir að borgarráð samþykkti auglýsingagögn vegna fyrirhugaðrar siglingar farþegaferju milli Reykjavíkur og Akraness næsta sumar. Gert er ráð fyrir að í siglingarnar verði notuð ferja sem tekið gæti 50-200 farþega. Hver sigling tæki 30-45 mínútur. Samþykkt var með fjórum atkvæðum meirihluta borgarráðs að auglýsa útboð siglinga farþegabáts milli staðanna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við afgreiðslu málsins. Sjálfstæðismenn lögðu fram bókun þar sem fram kom að þeir telja eðlilegt að auglýst sé eftir rekstraraðilum til að vera með farþegasiglingar milli Reykjavíkur og Akraness svo framarlega sem rekstraraðilar reki slíkt verkefni á eigin vegum og án opinbers stuðnings.

Þá bókaði borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina einnig vegna málsins og sögðu flokkinn sitja hjá við afgreiðslu á tillögunni. „Bókað hefur verið í tvígang í borgarráði um að við styðjum ekki að fjármunir skattborgara í Reykjavík fari í verkefnið, enda teljum við það óráðlegt að ráðstafa og forgangsraða fjármunum borgarinnar og skattfé almennings í tilraunaverkefni þetta. Hvetjum við meirihlutann til að gangast ekki við neinum þeim tilboðum sem fela í sér fjárútlát af hálfu Reykjavíkurborgar.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir