Af hverju ertu ekki uppi í húsi að vinna?

Hjónin Hrefna Daníelsdóttir og Páll Gísli Jónsson festu nýverið kaup á einbýlishúsi á tveimur hæðum við Heiðarbraut á Akranesi. Undanfarna daga og vikur hafa þau staðið í ströngu við að undirbúa flutning fjölskyldunnar. Eins og gengur og gerist þegar fólk kaupir fasteign vill það gjarnan breyta einhverju eftir eigin höfði. Hrefna og Palli eru þar engin undantekning og hafa leyft hverjum sem vill að fylgjast með í gegnum Instagram, blogg Hrefnu á Trendnet og ekki síst Snapchataðgang hennar. „Ég hef nú bara verið að sýna frá þessu á mínum persónulega aðgangi en það má segja að þar hafi orðið sprenging. Ég held það hafi milli 18 og 19 hundruð manns bæst við bara á síðustu tveimur vikum,“ segir Hrefna. Þarf kannski ekki að undra, enda hafa Íslendingar sýnt heimili og hönnun vaxandi áhuga undanfarin ár. Til að mynda telur Facebookhópurinn Skreytum hús tæplega 40 þúsund manns, eða um 12% þjóðarinnar. Þar skiptist fólk á hugmyndum og deilir reynslu sinni af hverju því sem prýða kann hús og híbýli, fyrst og fremst innanstokks.

„Það hafa margir áhuga á þessu og þetta spurðist fljótt út. Fólk alls staðar af landinu og meira að segja nokkrir erlendis fylgjast með okkur og virðist hafa áhuga á því sem við erum að gera. Mér finnst það fyrst og fremst skemmtilegt en upplifi það líka sem ákveðna hvatningu. Fyrst margir eru að fylgjast með þá er eins gott að vanda sig og láta þetta ganga,“ segir Hrefna og brosir. „Ég er búinn að lenda nokkrum sinnum í því úti í búð að vera spurður: „Hvað ertu að gera hérna? Af hverju ertu ekki uppi í húsi að vinna?“,“ segir Palli léttur í bragði. „Ótrúlegasta fólk, ekki bara vinir og kunningjar, eru að forvitnast hvernig gengur í húsinu,“ bætir hann við.

Sjá myndskreytta frásögn af heimsókn blaðamanns Skessuhorns í nýja húsið til Hrefnu Dan og Páls Gísla í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira