Máni Berg Ellertsson úr ÍA varð tvöfaldur Íslandsmeistar. Hér tekur hann við verðlaunum fyrir einliðaleik snáða U11. Við hlið hans er Theódór Ingi Óskarsson úr TBR sem hafnaði í öðru sæti.

ÍA eignaðist þrefaldan og tvöfaldan Íslandsmeistara

Badmintonspilarar frá Akranesi gerðu það gott á Íslandsmóti unglinga sem haldið var í húsnæði Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur um helgina. Alls tóku 138 spilarar frá tíu félögum þátt í mótinu. Skagastúlkan María Rún Ellertsdóttir náði þeim merka áfanga á mótinu að verða þrefaldur Íslandsmeistari. Hún spilaði í U13 ára flokki og varð Íslandsmeistari í einliðaleik, tvíliðaleik ásamt Hildi Marín Gísladóttur úr Umf. Samherja og í tvenndarleik þar sem hún spilaði með Gabríel Inga Helgasyni úr BH.

Skagapilturinn Máni Berg Ellertsson fagnaði tveimur Íslandsmeistaratitlum í U11 ára flokki; í einliðaleik og sömuleiðis í tvíliðaleik, en þar spilaði hann ásamt Höllu Stellu Sveinbjörnsdóttur úr BH.

Harpa Kristný Sturlaugsdóttir hafnaði í öðru sæti í tvíliðaleik U17 ára ásamt Ingibjörgu Rósu Jónsdóttur úr UMFS og Brynjar Már Ellertsson hafnaði í öðru sæti í tvenndarleik í sama aldursflokki, en hann lék einnig með Ingibjörgu Rósu.

Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir hafnaði í öðru sæti í einliðaleik U19 ára stúlkna og sömuleiðis í öðru sæti í tvíliðaleik U19 ára stúlkna, þar sem hún lék með Margréti Dís Stefánsdóttur úr TBR. Tómas Andri Jörgensson hafnaði í öðru sæti í tvíliðaleik U19 ára pilta ásamt Kristni Breka Haukssyni úr BH.

Þá ber að geta þess að rétt eins og Skagastúlkan María Rún varð Davíð Bjarni Björnsson úr BH einnig þrefaldur Íslandsmeistari, en hann spilaði í flokki U19 ára.

María Rún Ellertsdóttir úr ÍA varð þrefaldur Íslandsmeistari í U13 ára flokki. Hér tekur hún við verðlaunum fyrir einliðaleik. Með henni á verðlaunapallinum er Margrét Guangbing Hu Hamri, sem hafnaði í öðru sæti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir