Derek Shouse var hársbreidd frá þrennunni þegar ÍA tapaði fyrir Hetti. Ljósm. úr safni/ jho.

Fýluferð til Egilsstaða

Leikmenn ÍA lögðu land undir fót og mættu toppliði Hattar austur á Egilsstöðum í 1. deild karla í körfuknattleik í gær. Skagamenn gerðu enga frægðarför. Þeir voru fáliðaðir, aðeins sjö leikmenn tóku þátt í leiknum og máttu að lokum sætta sig við stórt tap. Höttur sigraði með 101 stigi gegn 66 stigum ÍA.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta. Þeir komust í 21-9 seint í fyrsta leikhluta en þá tóku Skagamenn við sér og luku upphafsfjórðungnum af krafti. Fjórum stigum munaði að honum loknum, Höttur leiddi 24-20. Heimamenn juku forskot sitt í öðrum leikhluta, komust mest 17 stigum yfir en ÍA minnkaði muninn í tólf stig fyrir hléið, 48-36.

Höttur réð áfram ferðinni í síðari hálfleik og Skagamenn höfðu ekki burði til að gera atlögu að forystunni. Þess í stað bættu heimamenn jafnt og þétt við forskotið í síðari hálfleik. Þeir höfðu 19 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 72-53. Það sem eftir lifði leiks héldu Hattarmenn uppteknum hætti. Þeir bættu hverju stiginu á fætur öðru á stigatöfluna og sigruðu að lokum með 35 stigum, 101-66.

Derek Shouse var atkvæðamestur Skagamanna og aðeins hársbreidd frá því að setja upp þrennu. Hann skoraði 28 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Áskell Jónsson skoraði 15 stig og Sigurður Rúnar Sigurðsson 13.

Skagamenn hafa tíu stig eftir 19 leiki og sitja í 8. og næstneðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir liði FSu í sætinu fyrir ofan en með öruggt forskot á Ármann, sem er stigalaust á botninum. Næsti leikur ÍA fer fram föstudaginn 24. febrúar næstkomandi þegar liðið tekur á móti Vestra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir