Brautskráð frá HÍ á morgun

Rúmlega 450 kandídatar taka við brautskráningarskírteini sínu í grunn- eða framhaldsnámi frá Háskóla Íslands á morgun, laugardaginn 18. febrúar. Þá fer febrúarbrautskráning skólans fram í Háskólabíói kl. 13. Athöfnin hefst með ávarpi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, en í framhaldinu fer fram brautskráning nemenda úr 25 deildum af öllum fimm fræðasviðunum skólans, Félagsvísindasviði, Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði, Menntavísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Samanlagður fjöldi brautskráðra er 455; 329 konur og 126 karlar. 179 kandídatar brautskrást frá Félagsvísindasviði, 78 frá Heilbrigðisvísindasviði, 77 frá Hugvísindasviði, 51 frá Menntavísindasviði og 70 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Í hópi brautskráðra er fyrsti nemandinn sem útskrifast með MS-gráðu í lífupplýsingafræði á Verkfæði- og náttúruvísindasviði.

Að lokinni brautskráningu kandídata mun Inga María Árnadóttir, varaformaður Stúdentaráðs, flytja ávarp og Háskólakórinn syngur nokkur lög. Kandídötum er ætlað afmarkað svæði í Háskólabíói og eru þeir beðnir um að mæta ekki síðar en kl. 12. Hver kandídat verður með númerað sæti sem kemur fram á nafnalista sem afhentur verður með dagskrá við innganginn og er sætaskipan í samræmi við afhendingu prófskírteina. Umsjónarfólk verður á staðnum til að leiðbeina um sætaskipan.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir