Húsnæðið hefur verið endurnýjað og endurinnréttað að nokkru leyti.

Krambúð opnuð á Akranesi í dag

Dyr Krambúðarinnar voru rétt í þessu opnaðar fyrsta sinni fyrir viðskiptavinum á Akranesi, eða klukkan 13 í dag. Verslunin er undir nýju vörumerki sem Samkaupskeðjan er að byggja upp og nefnist Krambúð og er verslunin á Akranesi fjórða þessarar tegundar á landinu.

Verslunin er til húsa að Garðagrund 1, þar sem Grundaval og nú síðast Samkaup Strax hafa verið til húsa. Hefur húsnæðið verið endurnýjað og endurinnréttað að töluverðu leyti, í stíl við aðrar Krambúðir á landinu.  „Hönnun Krambúðarinnar miðast af því að vísa til íslenskrar náttúru þar sem birki, grjót, hraun og sina ræður ríkjum. Andrúmsloftið á að vera létt með einföldu og stílhreinu litavali og á upplifunin að taka mið af því,“ sagði Gísli Gíslason rekstrarstjóri í Skessuhorni vikunnar þegar tilkynnt var um væntanlega opnun. Þar sagði hann enn fremur að mikil ánægja hefði verið með þessa nýju búðategund, bæði meðal íbúa í nærsamfélaginu sem og annarra. „Í Krambúðinni er lagt upp með að viðskiptavinir geti orðið sér út um þær vörur sem þarf til heimilisins hverju sinni á hagstæðu verði. Fyrir fólk sem er á ferðinni eða þá sem vantar skyndilausnir verður boðið upp á bakað á staðnum, tilbúna rétti, samlokur, tilbúin salöt og kaffi,“ segir Gísli Gíslason rekstrarstjóri í Skessuhorni vikunnar.

Opið verður í Krambúðinni fram eftir kvöldi og er kaffi í boðinu í tilefni dagsins. Opnunartíminn verður annars sem hér segir: Frá klukkan 8.00-23.30 virka daga og kl. 9.00- 23.30 um helgar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir