Hópurinn staddur á Akratorgi í gær. Ljósm. kgk.

Gengu að Akranesvita í heilsueflingarátaki

Síðdegis í gær fóru nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Vesturlands í gönguferð að Akranesvita. Göngunni fylgdi að sjálfsögðu skoðunarferð í vitanum. Lagt var upp frá FVA kl. 16, gengið sem leið lá niður Kirkjubraut, yfir Akratorg að Suðurgötu og síðan sem leið lá niður að Akranesvita á Breið. Góð þátttaka var í göngunni. Viðburðurinn var liður í svokölluðu hreyfikorti, sem allir dagskólanemendur og starfsmenn FVA fengu í upphafi skólaárs síðastliðið haust. Hreyfikortið er hluti af verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem heyrir undir Embætti landlæknis. Markmið þess verkefnis er að stuðla að bættri heilsu nemenda og starfsfólks framhaldsskóla, aukinni vellíðan og auknum árangri í skólasamfélaginu.

Stýrihópur verkefnisins stendur fyrir mánaðalegum viðburðum á skólaárinu 2016-2017 þar sem hreyfing, útivist og samvera er í fyrirrúmi. Alls eru þetta sjö viðburðir yfir árið, til dæmis útihlaup, fjallganga á Akrafjall og leikir. Þátttakendur fá stimpil á sitt hreyfikort til vitnis um þátttöku. Í lok skólaársins verður kortunum síðan safnað saman og dregin út vegleg verðlaun á sal skólans. „Fyrirtæki á Akranesi hafa verið afar jákvæð fyrir því að styrkja okkur með gjöfum og eiga þau miklar þakkir skyldar,“ segir í tilkynningu frá FVA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir