Stefán Bjarnason á góðri stund í afmælisveislunni.

Glatt á hjalla í aldarafmælisveislu Stefáns Bjarnasonar

Eins og greint var frá í Skessuhorni fagnaði Stefán Bjarnason, fyrrverandi yfirlögregluþjónn á Akranesi, hundrað ára afmæli sínu í gær. Stefán fæddist á Sauðárkróki 18. janúar 1917 en ólst upp á Siglufirði frá níu ára aldri. Hann byrjaði í lögreglunni á Siglufirði tvítugur að aldri en hóf störf hjá lögreglunni á Akranesi þegar hann var 24 ára gamall þar sem hann var allt til starfsloka, 65 ára gamall. Hann býr nú á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða á Akranesi.

Í samtali við Skessuhorn síðasta mánudag sagði Stefán þennan háa aldur koma sér á óvart. „Ég átti ekki von á þessu. Ég fékk heilablæðingu fyrir mörgum árum en var svo heppinn að hún gekk til baka. Maður nær sér aldrei alveg af svoleiðis. En ég hef alltaf verið duglegur að hreyfa mig, að sparka og gera æfingar og ég þakka því,“ segir Stefán Bjarnason.

Í tilefni aldarafmælis Stefáns var boðið til veislu á Höfða síðdegis í gær. Var hún vel sótt og glatt á hjalla meðal gesta. Flutt voru erindi afmælisbarninu til heiðurs, sungið og gestir gerðu sér glaðan dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir