Óþekktur maður býður skólabörnum Nýja-Testamentið

Á undanförnum vikum hefur nokkrum sinnum orðið vart við karlmann í nágrenni Grundaskóla á Akranesi sem í algjöru heimildaleysi býður nemendum skólans bækur að gjöf. „Maður þessi hefur nálgast nemendur í grennd við skólann og á skólalóðinni og boðið þeim að þiggja bækur. Um er að ræða hávaxinn eldri mann með hvítt hár og sítt skegg. Hann klæðist grænni úlpu, ferðast um á ljósleitum bíl, en ekur í burtu þegar hann verður var við starfsmenn skólans. Nemendum gefur hann síðan Nýja-Testamentið,“ segir Flosi Einarsson aðstoðarskólastjóri Grundaskóla í tölvupósti sem sendur hefur verið foreldrum barna í skólanum.

Flosi tekur fram að maðurinn hefur ekki boðið nemendum sælgæti, hefur ekki sýnt ógnandi hegðun né reynt að laða þau að sér á nokkurn hátt umfram það að gefa þeim fyrrgreindar bækur. „Við lítum þetta mál alvarlegum augum og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ná tali af þessum manni og gera honum grein fyrir því að við viljum að hann láti af þessari iðju. Við erum í nánu samstarfi við lögregluna sem fylgist grannt með svæðinu í kringum grunnskólana auk þess sem starfsfólk Grundaskóla hefur hert á gæslunni,“ segir Flosi. Fram kemur einnig að maður þessi var við Grundaskóla a.m.k. síðastliðinn miðvikudag og föstudag í þessum erindagjörðum og jafnframt a.m.k tvisvar sinnum fyrir jól.

Líkar þetta

Fleiri fréttir