Ný lög um heimagistingu tóku gildi um áramótin

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, frá því 2007. Með breytingunum nú er einstaklingum heimilt að leigja út heimili sitt og aðra fasteign, svo sem sumarhús, sem viðkomandi hefur til persónulegra nota, í allt að 90 daga á ári án þess að þurfa að sækja um mörg, flókin eða kostnaðarsöm rekstrarleyfi. Um leið er sett það skilyrði að leigutekjur einstaklings fari ekki yfir tvær milljónir króna á ári. Þá eru í lögunum útskýrð betur mörkin milli gististarfsemi í atvinnuskyni og tímabundinnar leigu af hálfu einstaklinga. Áhrifa breytinganna gætir m.a. í betri yfirsýn um gistiframboð, bættri skráningu og skilum skatttekna af gististarfsemi og einfaldara regluverki fyrir rekstrarleyfi.

Til að mega leigja út herbergi, íbúð eða sumarbústað í heimagistingu þarf að skrá eignina hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins eða á miðlægu vefsvæði sé það fyrir hendi. Einnig þarf skráningaraðili að fá starfsleyfi hjá heilbrigðisnefnd í viðkomandi sveitarfélagi. Eignin fær svo úthlutað skráningarnúmeri sem þarf að nota við alla markaðssetningu. Lögreglustjórar sjá um eftirlit með heimagistingu en sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar eftirlit með því að skráningarnúmer sé notað á þeim miðlum sem notaðir eru til að auglýsa heimagistingu. Þá er eftirlitið einnig í höndum þeirra sem lög og reglugerðir um matvæli, hollustuhætti og mengunarvarnir, eftirlit, aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og brunamál mæla fyrir um og átt geta við um viðkomandi starfsemi. Brjóti fólk hinar nýju reglur um heimagistingu getur það átt á hættu að lögð verði á stjórnvaldssekt sem getur numið allt að einni milljón króna.

Fólk sem hyggst skoða útleigu á íbúðarhúsnæði er hvatt til að lesa hin nýbreyttu lög. Þá má einnig á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga finna undir „Ferðamál“ gagnleg svör við ýmsum spurningum um útleigu fasteigna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir