Forsíðu Borgfirðingabókar 2016 prýðir ljósmyndin „Bráðum kemur betri tíð,“ eftir Jósefínu Morrell.

Borgfirðingabók 2016 komin út

Borgfirðingabók 2016 er komin úr prentun og er þessa dagana að berast áskrifendum. Bókin er 17. árgangur ársrits Sögufélags Borgarfjarðar. Borgfirðingabók er meginverkefni sögufélagsins nú um stundir og mikið hefur verið lagt í útgáfuna sem er tæpar 300 blaðsíður og ríkulega myndskreytt. Mjög víða er komið við í efnistökum og þau fjölbreytt að þessu sinni. Leitað var eftir efni frá höfundum víðsvegar um héraðið, af báðum kynjum, á ólíkum aldri og er efnið bæði í bundnu og óbundnu máli. Í formála minnist stjórn Sögufélags Borgarfjarðar Bjarna Valtýs Guðjónssonar frá Svarfhóli, en hann féll frá á síðasta ári. Bjarni Valtýr var einn af stofnendum sögufélagsins 1963 og ritari þess til dauðadags.

Í Borgfirðingabók eru að þessu sinni yfir 30 greinar eftir lítt fleiri höfunda.  Meðal efnis má nefna frásögn Helga Bjarnasonar blaðamanns frá Laugalandi sem hann nefnir „Hér rís skóli og jarðfrækt verður stunduð,“ og segir frá uppbyggingu á Varmalandi. Sagt er frá starfi tveggja grunnskóla, fimmtán ára sögu Raftanna, æskuminningum frá Álftártungu og Lundi í Þverárhlíð og þættir úr sögu Umf. Dagrenningar í Lundarreykjadal. Listakonan Josefine Morrell á Giljum er sótt heim og Jón Sigurðsson fyrrverandi rektor fjallar um menntasetur fyrri tíma. Guðmundur Þorsteinsson frá Efri-Hrepp fjallar um Reykholt á Sturlungaöld og fjölmargt annað er að finna í fróðlegri og fjölbreyttri Borgfiðingabók 2016.

Áhugasömum er bent á að hægt er að gerast áskrifandi að Borgfirðingabók og hægt að gera vart við sig á heimasíðu félagsins eða hringja í Ingibjörgu Daníelsdóttur stjórnarmann í síma 894-8108. Með henni í ritnefnd eru þeir Guðmundur Þór Brynjúlfsson og Sævar Ingi Jónsson. Borgfirðingabók kostar 4.500 krónur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir