Á bréfinu var hvorki nafn né heimilisfang en kort þess í stað. Ljósm. Steina Matt.

Frumleg áritun sendibréfs en dugði þó

Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld bóndi á Hólum í Hvammssveit fékk skemmtilega póstsendingu í lok marsmánaðar. Henni barst umslag með frumlegustu áletrun sem henni hefur borist fram til þessa. Nokkrir erlendir ferðamenn sem höfðu átt viðdvöl í sveitinni á Hólum gerðu tilraun til að senda Rebeccu og fjölskyldu póstkort án heimilisfangs. Á umslagið var þó ritað að staðsetningin væri á Íslandi og við Búðardal. Svo var teiknað upp kort og staðsetning bæjarins merkt inn á kortið og lítill texti látinn fylgja sem gaf þær upplýsingar að danska konan, viðtakandinn, ynni í verslun í Búðardal. Umslagið var póstlagt í Reykjavík en erlendu ferðamennirnir voru ekki alveg vissir um að það myndi skila sér en höfðu þó á orði að þessi áletrun á umslaginu yrði þá til að sanna að Ísland væri svalasta land á jarðríkinu og að allt væri mögulegt á Íslandi. Og þar með er það staðfest, allt er mögulegt á Íslandi, að minnsta kosti að koma póstkortum til skila með handteiknuðu staðsetningarkorti, samanber meðfylgjandi mynd.

Líkar þetta

Fleiri fréttir