adsendar-greinar Mannlíf
Magnús Benediktsson er framkvæmdastjóri Fjórðungsmóts Vesturlands sem haldið verður í Borgarnesi í sumar. Ljósm. úr einkasafni

Viðburður með hófför í jörðinni, hestalykt í loftinu og stuði fyrir alla

Magnús Benediktsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Fjórðungsmóts Vesturlands í hestaíþróttum sem haldið verður í Borgarnesi dagana 7.-11. júlí í sumar. Maggi er flestum hestamönnum kunnur en hann hefur verið áberandi í hestamennskunni allt frá barnsaldri. Hann starfaði lengi við tamningar og árið 2014 gerðist hann framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Spretts þar sem hann starfaði til ársins 2020 þegar hann festi kaup á helmingshlut í tímaritinu Eiðfaxa, ásamt félögum sínum, og tók þar við sem framkvæmdastjóri. Magnús býr í Kópavogi með unnustu sinni, Rakel Ýr Björnsdóttur, og tveimur börnum þeirra sem eru að verða níu og tveggja ára, en það þriðja er væntanlegt í maí. Rætt er m.a. um starfsferilinn, veikindi og Fjórðungsmót sem stefnt er að verði stærsti einstaki viðburður hestamanna á árinu.

Þrjú gull á fyrsta fjórðungsmótinu

Maggi bjó fyrstu árin á Hvolsvelli en flutti ungur að bænum Skarði í Landssveit þar sem hann ólst upp að stærstum hluta. Þar kynnist hann hestum og byrjaði að keppa sem ungur drengur. Hann keppti fyrst á stórmóti á Landsmóti hestamanna á Gaddstaðaflötum árið 1986, tólf ára gamall. „Ég keppti svo á mjög eftirminnilegu móti árið 1988, Fjórðungsmóti Vesturlands á Kaldármelum, þar sem ég átti frábært mót og keppti í stökkkappreiðum. Ég var þar með þrjá hesta og náði þremur gullum. Þetta er frábær æskuminning að eiga,“ rifjar Maggi upp en þess má geta að hann vann allar stökkkappreiðarnar á mótinu. „Upp frá þessu fór ég að stunda hestamennsku með skóla og eftir barnaskóla kom ég stutt við í framhaldsskóla en var fljótur að snúa mér að tamningum. Ég reyndi fyrir mér sem aðstoðarmaður hjá flottum tamningamönnum og valdi mér alveg þessa braut í lífinu,“ segir Maggi.

Skipti alveg um starfsvettvang

Árið 1994, að loknu Landsmóti hestamanna, flutti Maggi til Þýskalands sem tamningamaður þar sem hann lærði þýsku og inn á þýska hestamarkaðinn. Hann bjó í Þýskalandi í tvö og hálft ár en flutti þá aftur heim til Íslands og hélt áfram að temja, meðal annars á Stóðhestastöð ríkisins í Gunnarsholti. Árið 2000 skipti hann alveg um braut og fór að vinna hjá fyrirtækinu Stjörnublikk. „Ég veit ekki af hverju en mig langaði í meiri rútínu og öryggi í lífið en það var á þessum tíma oft lítið atvinnuöryggi að vera tamningamaður. Ég vann í fimm ár við hin ýmsu störf hjá Stjörnublikki en stundaði hestamennsku með svona að hluta til. Árið 2005 söðlaði ég svo algjörlega um og gerðist skemmtistaðaeigandi og keypti skemmtistaðinn Pravda ásamt félögum mínum. Ég er mikill veitingamaður í mér og það starf passaði mér vel. Ég naut mín mikið við að skipuleggja og halda úti skemmtistað og allskonar viðburði. Mér þótti gaman að eiga samskipti við mismunandi fólk, viðskiptavini, starfsfólk og skemmtikrafta,“ segir hann.

Miðbæjarbruni

Eftir rúm tvö góð ár í skemmtistaðabransanum brann Pravda síðasta vetrardag árið 2007. „Þetta var í stóra miðbæjarbrunanum þar sem eldur kviknaði í næsta húsi og barst þarna hratt yfir og ekkert hægt að gera,“ rifjar hann upp. En þeir félagarnir áttu á þeim tíma einnig skemmtistaðinn Deco, sem í dag heitir English pub. „Með Pravda brann í raun þessi draumur, við seldum Deco og ég hætti í þessum bransa,“ segir Maggi. Daginn fyrir brunann, á þriðjudegi, hafði hann farið í rannsóknir vegna slappleika í höfði þar sem teknar voru myndir og blóð. „Ég fékk svo símtal á föstudeginum þar sem mér er sagt að ég væri með veika æð í höfðinu, svokallaðann æðagúlp. Ég þurfti því að leggjast á skurðaborðið en komst ekki að í aðgerð fyrr en 6. júní, rúmum mánuði seinna. Ég mátti varla hreyfa mig þennan tíma fram að aðgerð,“ segir Maggi.

Mikil áskorun í lífinu

„Þetta átti að vera einföld aðgerð og mér var sagt að það ætti bara að taka nokkra daga að jafna sig. Svo veit ég ekkert fyrr en ég vakna lamaður á vinsti hlið,“ segir hann. Æðagúlpurinn hafði þá sprungið á skurðarborðinu og töluvert blætt inn á heila. „Ég missti minnið og þurfti að læra að tala upp á nýtt og var alveg lamaður á vinstri hlið. Þetta var sem betur fer ekki varanlegt en og ég fór á Reykjalund þar sem ég fékk að kynnast því hvað heilbrigðiskerfið okkar er í raun magnað,“ segir Maggi. Það tók hann mörg ár að ná fullum bata og hann var lengi að læra að treysta minninu sínu að nýju. „Ég hafði alltaf verið með mjög gott sjónminni sem ungur maður svo það var mjög erfitt að geta ekki lengur treyst minninu sínu. Ég treysti mér ekki á vinnumarkaðinn því ég hafði ekki trú á sjálfum mér og var í raun alveg brotinn á þessum tíma,“ segir hann.

Árið 2009 fer hann aftur af stað í hestamennskunni og heldur fyrstu sýninguna sem kallast Stóðhestaveisla. „Ég hefði líklega aldrei komist þangað ef ekki væri fyrir vini mína og fjölskyldu. Stuðningsnetið skiptir öllu máli þegar maður er að komast í gegnum svona bata,“ segir Maggi. Eftir að hafa haldið Stóðhestaveisluna tvö ár einn kom félagi hans með honum í það árið 2011 og þeir stofna félag í kringum sýningarnar. „Við gáfum út stóðhestabók og ég vann svo við að halda stóðhestasýningar. Ég var bara að reyna að koma mér aftur út í lífið á mínum forsendum, vera minn eign yfirmaður og gera hlutina á mínum hraða.“

Keypti hlut í Eiðfaxa

„Árið 2014 var komið að máli við mig og ég hvattur til að sækja um sem framkvæmdastjóri Spretts, það var ungt og efnilegt nýstofnað hestamannafélag, samruni úr tveimur frábærum félögum. Uppbygging félagsins var mér að skapi og þarna var ég tilbúinn að taka að mér svona verkefni,“ segir Maggi sem byrjaði að starfa fyrir félagið í apríl árið 2014. „Þetta var mjög góður tími en allt hefur sinn tíma og mér þótti gott eftir fimm og hálft ár að söðla um og fara í Eiðfaxa,“ segir Maggi sem keypti þá helmingshlut í Eiðfaxa ásamt félögum sínum. „Þetta er rótgróið tímarit sem var stofnað árið 1977 og hefur lifað með hestamönnum alla tíð,“ segir Maggi sem starfar í dag sem framkvæmdastjóri Eiðfaxa.

Undirbúningur gengur vel

Síðastliðið sumar var komið að máli við Magga og orðað við hann að taka að sér framkvæmdastjórn fyrir Fjórðungsmót Vesturlands. „Það fór ekkert lengra þá því ég var ekki alveg reiðubúinn í það verkefni á þeim tíma. Ég var nýkominn í Eiðfaxa og ætlaði bara að taka eitt skref í einu. Í kringum áramótin kom Eyþór Gíslason svo að máli við mig og þá var ég klár í þetta og hér er ég núna,“ segir Maggir og hlær. „Ég fékk að kíkja á nefndina áður en ég tók ákvörðun og þar þekkti ég mörg nöfn sem mér leist vel á. Ég vissi að ég væri að fá alvöru fólk með mér og það er lykilatriði fyrir skipulag á svona móti, að fólk vinni á sömu bylgjulengd. Þetta reyndist rétt hjá mér, hópurinn er samstíga og undirbúningur gengur rosalega vel,“ segir Maggi.

Allt að ske í Borgarnesi

„Við erum komin með drög að dagskrá og ætlum til dæmis að vera með Íslandsmótið í járningum þarna og fleira skemmtilegt. Hugmyndin er að gera meiri viðburð úr mótinu, vera með sveitamarkað í reiðhöllinni og allskonar viðburði til að grípa fólk af götunni inn á svæðið án þess að þurfa að borga sig inn á hestamannamót,“ segir Maggi. „Það verður allt að ske í Borgarnesi þessa helgi fyrir alla fjölskylduna. Þetta verður stórt mót þar sem hestamenn um allt land mæta, stefnum er að þetta verði stærsta hestamannamót ársins,“ bætir hann við. Maggi býr vel að fyrri reynslu við skipuleg mótsins en hann þekkir vel bæði inn á landslag hestamanna og inn á skemmtanabransann. „Við munum búa til viðburð með hófför í jörðinni, hestalykt í loftinu og stuði fyrir alla,“ segir Magnús Benediktsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir