adsendar-greinar Mannlíf
Vilhjálmur Birgisson í vel búnum og rúmgóðum fundasal. Hann mun nýtast vel í starfseminni fyrir námskeiðahald og annað. Ljósm. frg.

Verkalýðsfélag Akraness flutt í nýtt húsnæði

Verkalýðsfélag Akraness flutti á dögunum starfsemi sína í nýtt húsnæði við Þjóðbraut 1. Eldra húsnæði félagsins við Sunnubraut á Akranesi, sem er um 100 fermetrar auk 40 fermetra fundarsalar undir súð, var orðið alltof lítið og rúmaði ekki lengur starfsemi félagsins. Hið nýja húsnæði er hins vegar um 300 fermetrar og hátt til lofts og vítt til veggja ásamt því að þar er afar rúmgóður fundarsalur. Fundarsalurinn hentar vel til ýmissa fundahalda auk þess að vera vel útbúinn fyrir námskeiðahald á vegum félagsins. Að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns VLFA, uppfyllir hið nýja húsnæði allar kröfur sem gerðar eru til starfsemi stéttarfélaga. Aðgengi félagsmanna er gott og staðsetningin á besta stað miðsvæðis í bænum.

Auk VLFA hafa tveir ráðgjafar VIRK aðstöðu á skrifstofunni en VIRK býður félagsmönnum stéttarfélaga þjónustu á sviði starfsendurhæfingar. VLFA hefur frá árinu 2002 verið með starfsemi sína á Sunnubraut. Þá voru félagsmenn um 1.500 en í dag hefur fjöldinn rúmlega tvöfaldast og er nú um 3.200. Vilhjálmur segir morgunljóst að eldra húsnæðið hafi fyrir verið sprungið.

Að sögn Vilhjálms var mikil áhersla lögð á að versla við heimamenn frá a-ö við standsetningu skrifstofunnar enda sjaldan meiri þörf á því en núna. Trésmíðavinna var í höndum Trésmiðjunnar Vegamóta, Rafpró sá um raflagnir og Blikksmiðja Guðmundar sá um loftræstikerfið sem er afar öflugt að sögn Vilhjálms og tryggir gott loft á skrifstofunni. Topp Útlit hafði með höndum merkingar og filmur á glerveggi, HBH Byggir á Akranesi sá um hurðir og húsgögn voru keypt í verslun Pennans á Akranesi. Kaupin á hinu nýja húsnæði eru að sögn Vilhjálms fjármögnuð með sölu eigna félagsins, annars vegar skrifstofunni að Sunnubraut og hins vegar efstu hæðarinnar í Kirkjubraut 40.

Sökum takmarkana vegna Covid-19 er skrifstofa félagsins lokuð og getur Verkalýðsfélagið ekki haft opið hús að svo stöddu til að fagna nýrri og betri aðstöðu. En um leið og aðstæður leyfa mun verða haldið opið hús þar sem félagsmenn geta skoðað nýju aðstöðuna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira