adsendar-greinar Erlent

Þórðargleði og hættulegustu dýrin í Afríku

Það er mikil lukka að fá að vera hérna í Níger í Afríku, sérstaklega þegar netið í símanum mínum virkar vel og ég næ að skoða veðurfréttirnar frá Íslandi. Það koma dagar þar sem ég ligg við sundlaugarbakkann í 37°C hita með ananassafa í hönd og símann í hinni, og sé að enn annar stormurinn er á leiðinni til ykkar. Þá kemur yfir mig tilfinning sem er ögn erfitt að lýsa. Það kemur kannski ekki á óvart að Þjóðverjar hafa að sjálfsögðu orð yfir þessa tilfinningu á sinni tungu: „Schadenfreude,“ sem lauslega merkir að finna fyrir ánægju yfir óförum eða óhamingju annarra. Þetta er þýtt sem „Þórðargleði“ á íslensku en sama hvert heitið er þá veit ég að þið þekkið tilfinninguna. Þið hafið séð þetta sérstaka glott á samfélagsmiðlum Íslendinga sem eru í sólarlandaferð – og hver veit nema að þið séuð með þetta sama glott á ykkur sjálfum á einhverri mynd í símanum ykkar. Það er gott að njóta góðs veðurs hvort sem það er heima eða erlendis, en veðrið er samt alltaf best ef maður veit að það er verra einhverstaðar annarsstaðar á Íslandi. Þetta er mér, og líklegast okkur öllum, bara í blóð borið.

Þessa veðraþórðargleði játa ég af fúsum og frjálsum vilja og er sekur um að senda inn margar myndir heim til vina og ættingja af sól og blíðu hérna í Niamey, en hve djúpt nær þessi tilfinning? Ég grínast og grobba mig af því að vera heppinn með veður, en ég man ekki svo vel eftir því að grínast með að vera heppinn með aðra hluti í lífinu mínu á sama hátt.

En ég er mjög heppinn í lífinu. Núna í vikunni var mér og kærustunni boðið í afmælisveislu sem var um borð í litlum bát á ánni Níger. Um miðjan dag keyrðum við út fyrir borgina og að litlu gistiheimili við árbakkann. Við bárum á okkur slatta af sólarvörn og skordýrafælu og stigum um borð. Þrátt fyrir að báturinn væri gamall og ögn frumstæður þá fannst mér þetta vera mikill lúxus. Við komum okkur vel fyrir í skugganum á mjúkum dýnum og með gríðarstórt kælibox fullt af mat og drykk. Gamli mótorinn fór í gang og heimamennirnir sigldu af stað með okkur um ána og í kringum litlu eyjarnar. Þeir sögðu okkur að ef við værum heppin þá myndum við sjá hættulegasta dýrið í Afríku!

Vorum við að fara að sjá krókódíla í ánni eða kannski væru ljón við árbakkann, ég var ekki viss, kannski eru fílar eða hýenur hættulegasta dýrið? Hvaða dýr er hættulegast mönnum í Afríku? Það eru nokkur áhugaverð svör við þessari spurningu. Tæknilega rétta svarið er að moskítóflugan er hættulegasta dýrið í Afríku þar sem um milljón manns deyja hér árlega vegna malaríusmita frá þessum flugum. Kærastan mín varð þrisvar sinnum mjög veik af malaríu en blessunarlega náði hún góðum bata. Ég ber því óttablandna virðingu fyrir þessum bölvuðu flugum en það væri nú svolítið lélegt ef þetta væri dýrið sem værum að reyna að sjá á þessari lúxussiglingu. Tæknilega réttu svörin eru að pöddur og snákar eru víst fólki mjög hættuleg en hvert er þá hættulegasta spendýrið í Afríku? Heimspekilega rétta svarið er sú sorglega staðreynd að mannfólkið er mannfólkinu hættulegast, hér deyja hundruðir þúsunda á ári vegna stríðs og glæpa. Aftur verð ég að segja að þessi lúxussigling væri frekar léleg ef markmiðið væri að sjá morð framið á árbakkanum, en hvert er þá hættulegasta spendýrið í Afríku fyrir utan mannfólkið?

Svarið er að flóðhestar eru hættulegastir. Ég á bágt með að trúa því en þessir kjánalegu risar eru víst alveg stórhættulegir. Þessi dýr geta vegið mörg tonn, karldýrin hafa skögultennur í kringum 50 cm að lengd og bæði karl- og kvendýr hika ekki við að velta bátum og drepa allt sem í þeim hreyfist. Ef maður nær að synda í land er maður samt ekki óhultur því þessir klunnalegu risar geta hlaupið á allt að 30 km hraða. Talið er að flóðhestar drepi í kringum 3000 manns á ári, aðallega fiskimenn og einstaka sinnum ferðafólk á bátum sem sigla of nærri ungviðinu þeirra. Heimamennirnir sögðu þessar staðreyndir með bros á vör og fólkið í veislunni þýddu frönskuna fyrir mig. Stuttu síðar komu svo hróp og köll þegar heimamenn bentu á að það væri hjörð af flóðhestum þarna í fjarska og við myndum sigla nær til að taka myndir.

Sem betur fer fór allt vel og heppnin var með okkur. Flóðhestarnir geispuðu bara og svömluðu letilega um á meðan við reyndum okkar besta að ergja þá ekki, en samt ná að taka af þeim myndir. Þetta var alveg hreint yndisleg sigling og mér leið eins og ég væri mjög heppinn. Heppinn með veður, heppinn með rólegu flóðhestana en líka heppinn þegar ég sá fólkið á litlu eyjunum. Við sigldum framhjá bláfátækum þorpum þar sem konur þvoðu þvott í ánni og naktir krakkar svömluðu við árbakkann að reyna að veiða eitthvað í matinn. Það eru margar hættur í ánni fyrir þessi börn, allskonar sníkjudýr, mengun og morðóðir flóðhestar, en samt voru þau þarna að veiða. Svo kemur hvítur maður í lúxussiglingu siglandi framhjá þeim, með mat og drykk í kæliboxinu sem myndi líklegast fæða allt þorpið. Heimamennirnir á bátnum ráðlögðu okkur að stoppa ekki, afmælisveislan hélt áfram og við sigldum inn í sólsetrið. Áin Níger og náttúran hérna er alveg gullfalleg og að upplifa þetta allt við sólarlagið er nánast ólýsanlegt.

En þegar ég hugsa um krakkana við árbakkann er auðvitað engin „Schadenfreude“ í mínum huga. Í allri alvöru er ekki hægt að gleðjast yfir óförum annarra. Ég grínast með Þórðargleðina við ykkur heima, en það er af því að við höfum það svo gott þar þrátt fyrir veðrið. Að vera laus við sníkjudýr, að óttast hvorki stríð né flóðhesta og geta helst bara kvartað yfir slæmu veðri, það eru ótrúleg forréttindi sem við ættum ævinlega að vera þakklát fyrir.

 

Geir Konráð Theódórsson

Höf. er Borgnesingar sem dvelur nú í Níger og deilir upplifun sinni með lesendum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Saman á Skaga

Verkefni sem snýst um að rjúfa félagslega einangrun fullorðinna fatlaðra einstaklinga Undanfarin tvö ár hefur Hildur Karen Aðalsteinsdóttir stýrt verkefni... Lesa meira