adsendar-greinar Heilsa
Hún var orðin 170 kíló þegar botninum var náð.

„Núna borða ég til að lifa en lifi ekki til að borða“

– segir Sandra Björk sem hefur misst 87 kíló og líður mun betur

Sandra Björk hafði verið í megrun frá því hún var barn og er búin að prófa alla kúrana í bókinni. Það var ekki fyrr en hún fór að vinna í andlegu heilsunni sem hún náði tökum á þeirri líkamlegu. „Minn endapunktur var þegar ég ég slökkti á símanum, fékk lánaðan bíl hjá mömmu og keyrði í Mosó á KFC til að kaupa fjölskyldutilboð fyrir sex. Ég keyrði svo á annað bílastæði og át það allt og fór svo bara að gráta því mér var farið að verkja. Það er engin venjuleg manneskja sem borðar fjölskyldutilboð fyrir sex. Þarna hugsaði ég bara að ég væri að drepa mig og yrði að gera eitthvað í mínum málum,“ segir Sandra Björk í samtali við Skessuhorn.

Sandra Björk er nú búin að missa 87 kíló.

Offitusjúklingur með matarfíkn

„Ég hafði alltaf verið feit, frá því ég var bara barn. Ég lenti í einelti vegna fæðingargalla á höndum og fótum og leitaði huggunar í mat. Ég held að þetta hafi allt byrjað svoleiðis,“ segir Sandra Björk. Maturinn varð hennar besti vinur en líka helsti óvinur. Árið 2002 eignaðist hún Andra, son sinn, og þurfti hann mikið að liggja inni á spítala og fara í aðgerðir. Sandra Björk var mikið með Andra á spítalanum en mamma hennar, amma Andrea, var dugleg að hjálpa þeim mæðginum en á þessum tíma sótti Sandra Björk mikið í mat til huggunar. „Ég var eiginlega bara í áskrift af sjálfsölunum, fór þangað til að fá mér nammi eða samlokur og annað sem var ekki gott fyrir mig. Það var svo fyrir níu árum sem ég setti tappann í flöskuna og hætti að drekka og reykja og þá fékk ég bara enn meiri fíkn í mat. En ég er offitusjúklingur og matarfíkill,“ segir Sandra Björk.

Verkefni út lífið

Eftir ferðina á KFC, sem að sögn Söndru Bjarkar var hennar botn, leitaði hún sér aðstoðar til lækna og sálfræðinga. Hún byrjaði að vinna í prógrammi á vegum GSA, sem eru tólf spora samtök fyrir matarfíkla. „Ég fór í Heilsuborg og svo á Reykjalund og var á þessum tíma harðákveðin í að ná þessu af mér sjálf, ég ætlaði sko ekki í neina aðgerð. En í þessu ferli öllu fór ég að vinna mikið með hausinn á mér, sem er stærsti parturinn af þessu ferli. Eftir það ákvað ég að hlusta á fræðingana á þessu sviði og fara í aðgerð,“ segir Sandra Björk sem fór í hjáveituaðgerð í maí á síðast ári. „Aðgerð er samt engin endastöð heldur bara ein af hjálpartækjunum. Ég gæti vel borðað á mig öll kílóin aftur og ég verð að hugsa um þetta ferli sem verkefni sem ég þarf að vinna í út lífið.“

Gekk ekki mjó út af sjúkrahúsinu

Á um tveimur til þremur árum hefur Sandra Björk misst 87 kíló en þegar hún var sem þyngst var hún 170 kíló. „Fólk heldur að ég hafi farið auðveldu leiðina með að fara í aðgerð en þetta er alls ekkert auðveld leið. Það er ekki eins og ég hafi gengið mjó út af sjúkahúsinu eftir aðgerðina. Aðgerðin hjálpaði mér vissulega en ef ég vinn ekki sjálf í þessu þá gerir aðgerðin ekkert fyrir mig,“ segir hún. „Það er margt sem spilar inn í árangurinn og svo er erfiðasti parturinn að halda þessu út lífið. Ég þarf alla daga að vinna í heilsunni, hreyfa mig, passa hvað ég læt ofaní mig og passa að borða oft og gæta þess að hafa skammtana ekki of stóra,“ heldur Sandra Björk áfram.

Megrun uppskrift að vanlíðan

Eins og fyrr segir hefur hún prófað ýmsa megrunarkúra í gegnum árin og oft náð smá árangri á þeim en ekki haldið þá út. Þá segir hún þessa kúra oftast vera uppskrift að vanlíðan og verri heilsu þegar upp er staðið, allavega fyrir fólk sem er svo langt komið í matarfíkn eins og hún. „Ég var kannski að missa tíu kíló en sprakk svo og bætti á mig 50 kílóum. Svona gekk þetta oftar en ekki, enda snérust þessir kúrar eiginlega um að svelta sig og það virkar augljóslega ekki til lengri tíma. Til að komast úr þessum vítahring og viðhalda bættu lífi þarf fyrst og fremst að vinna í toppstykkinu og það er eitthvað sem ég verð alltaf að halda við. Matur er svo stór partur af lífi okkar, ef við erum að fagna er matur, ef okkur líður illa er matur, ef við erum glöð er matur. Það er bara alltaf matur við öll tilefni hjá okkur og ég hef því þurft að breyta viðhorfi mínu til matar. Ég fæ mér alveg mat við þessi tilefni en ég þarf að passa hvað ég fæ mér og hversu mikið. Núna borða ég til að lifa en lifi ekki til að borða,“ segir Sandra Björk.

Hreyfingin nýja fíknin

Sandra Björk heldur sig að mestu frá sykri í dag enda finnur hún hversu illa sér líður ef hún borðar hann. Hún segist gæta þess að borða oft og lítið í einu og ganga um 15-20 kílómetra á dag. „Það má eiginlega segja að hreyfing sé nýja fíknin mín og ég er bara fegin að það sé fíkn sem er góð fyrir heilsuna mína,“ segir hún og hlær. „Ég verð að komast út alla daga, þá líður mér svo mikið betur,“ segir hún og bætir við að hún setji sér engin markmið um að labba ákveðna vegalengt á ákveðnum tíma eða neitt slíkt. „Þetta snýst bara um að hreyfa sig og njóta. Ég stoppa stundum og spjalla við fólk eða til að taka myndir,“ segir hún. „Ég var alltaf að búa til afsakanir til að fara ekki út, það var kannski of vont veður eða ég hafði verið svo dugleg í öðru þann daginn eða eitthvað. Ég gat endalaust fundið afsakanir fyrir því að fara ekki út að hreyfa mig. En núna bara eru ekki til afsakanir í mínum huga. Ég fer út á hverjum degi, sama hvernig veðrið er, ég bara klæði mig eftir veðri,“ segir hún. Í dag hugsar Sandra Björk um sjálfa sig eins og hún myndi hugsa um sinn besta vin og segir mikilvægt að koma alltaf vel fram við sjáfan sig. „Mér þykir rosalega vænt um mig og líkamann minn.“

Hefur fundið fyrir fitufordómum

Síðustu misseri hefur verið mikil umræða í samfélagin um líkamsvirðingu og fitufordóma. Spurð hvað henni þykir um þá umræðu segist Sandra Björk lítið hafa pælt í henni en að vissulega hafi hún fundið fyrir fitufordómum. „Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir að fólki getur liðið vel þótt það sé feitt. Ég held að vandamálið sé bara að fólk er of mikið með líkamsvöxt annarra á heilanum. Það er frábært að það sé verið að tala um þetta og að fólk sé að læra að elska líkamann sinn hvort sem hann er feitur eða mjór,“ segir hún. „En ástandið hjá mér var ekki þannig að ég gat bara lært að sætta mig við líkamann eins og hann var og lifað með því. Ég var að glíma við sjúklega offitu sem var að drepa mig. Ég var ekki bara feit, ég var hættulega feit,“ bætir hún við. „Ég hef alveg fundið að það getur verið feimnismál að tala um fitu en ég held að fólk sé ekki jafn feimið við að tala um líkama þeirra sem eru grannir,“ segir hún. „Fólk gat aldrei sagt við mig að ég væri feit heldur talaði alltaf í kringum það. En núna þegar ég hef misst 87 kíló þá er allt í einu í lagi að tala um það og fólk er að spyrja hvort þetta sé ekki komið gott og hvort ég ætti ekki að fara að slaka á núna,“ segir Sandra Björk. Hún óskar þess að fólk hætti alfarið að hugsa svona mikið um líkama annarra og að við lærum öll að bera virðingu fyrir öllum, óháð þyngd.

Erfitt að vera til

Sandra Björk segist hafa verið komin á þann stað að ef hún hefði ekkert gert í sínum málum hefði það bara verið spurning um hvenær ekki væri aftur snúið. „Sem betur fer fékk ég aðstoð, ég hefði aldrei getað þetta ein. Það fylgir oft skömm með þessari fíkn, að geta ekki haft stjórn á sér og því sem maður borðar. En ég skammast mín ekki, hvorki fyrir að hafa orðið svona feit eða að hafa fengið þessa aðstoð,“ segir Sandra Björk. Hún hugsar ekkert um þyngdina í dag og hefur komið baðvigtinni fyrir inni í skáp og er það helsti munurinn á þessu ferli og þeim misheppnuðu megrnunarkúrum sem hún hefur prófað áður. „Þetta er ekki megrun sem ég er í núna heldur snýst þetta um andlega heilsu og að geta lifað góðu lífi. Lífsgæðin eru svo mikið meiri núna. Það var ekki gott líf sem ég átti áður, ég var eiginlega fangi í eigin líkama. Ástandið var svo slæmt að þegar ég fór út reyndi ég að gera allt sem ég þyrfti að gera þann daginn áður en ég fór aftur heim því ég gat ekki hugsað mér að þurfa að labba oftar en einu sinni upp tröppurnar,“ segir hún en Sandra Björk býr á annarri hæð í blokk. „Ég gat varla reimað á mig skó, þurfti framlengingu í flugi, átti erfitt með að finna föt sem pössuðu og svo gat ég bara varla hreyft mig. Það var bara erfitt að vera til yfir höfuð,“ segir hún.

Þarf ekki kort í ræktina

Aðspurð segist hún ekki hafa stigið fæti inn í líkamsræktarstöð í þessu ferli öllu. „Ég var áskrifandi af líkamsrækt í mörg ár og alltaf ef ég hreyfði mig verðlaunaði ég mig með að éta og þetta var ekki að vinna vel saman. Það fór ekki vel í mig þetta fyrirkomulag og því hef ég haldið mig frá líkamsræktarstöðvum og fer bara út að labba og í sund,“ segir hún. „Það er vel hægt að gera þetta án þess að eiga kort í ræktina,“ segir Sandra Björk að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi... Lesa meira