adsendar-greinar Mannlíf
Salthúsið var í mjög slæmu ástandi þegar Árni og Steingerður keyptu það.

Eru að endurbyggja fjórða húsið sem þau kaupa á Hellissandi

Síðastliðinn laugardag var högglistasýningin Um tröll, gyðjur og menn opnuð í porti við Salthúsið á Hellissandi, Hellisbraut 1a. Listamennirnir sem setja upp sýninguna eru Gerhard König og Lárus Sigurðsson og sýninguna opna þeir í samstarfi við eigendur Salthússins, Steingerði Jóhannsdóttur og Árna Emanúelsson. Steingerður og Árni keyptu Salthúsið fyrir rúmlega tveimur árum og hófu að gera það upp en húsið var í mjög slæmu ástandi. „Ef það er ónýtt hús á Hellissandi þá kaupum við það,“ segir Árni og hlær, en þetta er fjórða nærri ónýta húsið á Hellissandi sem þau kaupa og gera upp. Við Salthúsið er sjarmerandi port sem þeim þótti tilvalið að nýta fyrir listsýningu. „Við þekktum til Gerhards og Lárusar og buðum þeim því að setja upp fyrstu sýninguna í portinu,“ segir Steingerður og bætir við að portið kalla þau útilistaport.

Gera upp lítinn bæ í frítímanum

Steingerður og Árni komu á Hellissand fyrir um 25 árum í leit að litlu notalegu húsi við sjóinn. Þau skoðuðu hús sem uppfyllti næstum allar þeirra kröfur en ekki þá mikilvægustu, að vera við sjóinn. „Okkur var þá bent á Ártún, hús alveg við sjóinn,“ segir Steingerður. „En það var ónýtt,“ skýtur Árni inn í. „Við gengum ekki nema tvo hringi í gegnum húsið áður en við ákváðum að kaupa það og ráðast í framkvæmdir,“ segir Steingeður. Þau gerðu upp húsið og hafa síðan þá dvalið þar í fríum og um helgar en þau eru búsett í Hafnarfirði. Næst keyptu þau hús sem heitir Valhöll og gerðu það sömuleiðis upp. „Það var ekki alveg ónýtt en svona eins og einhver hefði hlaupið frá því í miðjum klíðum,“ útskýra þau. Húsið leigðu þau út sem sumarhús í nokkur ár áður en þau seldu það.

Aðstaða fyrir listamenn

Þriðja húsið sem þau gerðu upp á Hellissandi er Hvítahúsið, hús sem hefur verið notað sem setur fyrir listamenn. „Við gerðum húsið alveg upp og leigðum það út fyrir listamenn að vinna verk sín,“ segir Steingerður og bætir við að listamennirnir hafi einnig getað haldið þar sýningar. Hvítahúsið seldu þau og keyptu því næst Salthúsið fyrir um tveimur árum. Síðan þá hafa þau varið tímanum sínum í að gera húsið upp en það var í mjög slæmu ástandi þegar þau keyptu það. „Þakið var alveg ónýtt og hafði lekið alveg niður í gólf,“ segir Árni. Þeirra fyrsta verk var að hreinsa burt allt rusl og fylltu þau samtals þrjá stóra gáma af rusli. Aðspurð segjast þau stefna á að ljúka við uppgerð hússins næsta vor. En hvað ætla þau að gera þar þegar þau hafa gert það upp? „Við ætlum að vera með aðstöðu þar fyrir listamenn, svipað og við vorum með í Hvítahúsinu en núna með áherslu á höggmyndir, skúlptúra og útilist,“ svarar Steingerður.

Opið út júlí

Sýningin við Salthúsið verður opin alla daga á milli klukkan 14 og 17 út júlímánuð. „Við verðum þarna í allt sumar svo fólk má endilega koma við. Ef við verðum ekki á svæðinu vera listamennirnir það,“ segir Steingerður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira