adsendar-greinar Bílar

Bóna, bóna, bóna og bóna

Einar Árni Pálsson í Borgarensi vinnur stóran hluta af árinu á frystitogara, en vinnur einnig við að þrífa bíla þegar hann er í landi og hefur fengið mikið hrós fyrir sína vinnu, skilar bifreiðum eins og nýjum til eiganda. Skessuhorn setti sig í samband við Einar til að fá nokkur góð ráð; tips og trix, þegar kemur að bílaþrifum sem lesendur blaðsins geta vonandi nýtt sér á næsta fallega vordegi.

Frá tjöruhreinsi í bón

„Best er að byrja á því að tjöruhreinsa allan bílinn og þá er líka gott að setja „iron remover“ ef langt er síðan bíllinn hefur verið þrifinn til að ná úr honum járnflísum sem setjast í lakkið. Járnflísar koma aðallega frá bremsuklossum en einnig frá götunni,“ segir Einar Árni um fyrstu skrefin. „Gott er að leyfa tjöruhreinsinum að liggja á bílnum í 10-15 mínútur og skola síðan af og nudda með svampi eða tusku þar sem við á. Síðan setur maður sápubón í fötu í hlutföllunum einn á móti 10/20 blöndu og setur á allan bílinn og rúðurnar líka. Þetta er nuddað með svampi eða þvottahanska og svo skolað af þegar öll óhreinindi eru farin,“ bætir hann við. „Síðan er bíllinn þurrkaður með þurrkhandklæði og látinn þorna vel áður en bón er sett á. Ég fer yfirleitt í inniþrif á meðan bíllinn þornar almennilega því það lekur oft vatn undan gúmmílistum. Þá ryksuga ég tausæti og/eða set leðurnæringu á leðursæti. Þurrka af mælaborði, þríf rúður og ber vörn eða mælaborðagljáa á mælaborð og hurðarspjöld og svertu á mottur,“ telur Einar Árni upp.

„Síðan þegar það er búið þá er bón borið á bílinn. Það eru til svo margar tegundir af bóni. Sumar tegundir eiga að bíða í töluverða stund, önnur bón á að bera á til dæmis eina hurð í einu og þurrka svo strax af. Svo má ekki gleyma að flest bón mega fara á rúðurnar líka. Það er svo misjafnt hvað fólki finnst hvaða bón er best að nota og um að gera að spyrja í verslunum og fá ábendingar. Sjálfur nota ég þýskar eðalvörur frá fyrirtæki sem heitir Ecomar. Ég set svo plastvörn á allt plast eins og stuðara og drullusokka og svo svertu eða glans á dekkin,“ bætir hann við.

Fyrir lengra komna

„Ég nota háþrýstidælu við þrifin og þrýstikút til að úða sápunni á, það auðveldar allt ferlið og flýtir fyrir. Eitt sem ég mæli alls ekki með, það er að nota þvottakúst á bílinn. Það rispar lakkið og til dæmið þá eru nýir bílar í dag með mun þynnra lakk en gömlu jálkarnir og eru því viðkvæmari fyrir vikið. Svo má alls ekki nota heitt vatn heldur nota volgt eða kalt vatn,“ segir Einar Árni fyrir þá sem vilja taka bílaþrifin á hærra plan. „Ég nota svo loftpressu til að blási vatni undan hurðaropnurum, bensínlokinu, undan númeraplötum og svipuðum stöðum, því það er ekki gott að fá vatn lekandi þegar maður ber bónið á. Annað sem er mikilvægt að hafa í huga, það er að þurrka bílinn eftir þvott þó það eigi ekki að bóna í kjölfarið. Þá koma ekki blettir í lakkið eftir þornaða vatnsbletti sem nást stundum ekki af nema með mössun,“ bætir hann við áður en hann fer í að ræða bónið nánar.

„Best er að nota dýrari bón sem duga í þrjá til sex mánuði, þá þarf að bóna sjaldnar. En varðandi hversu oft þarf að bóna þá er gott að hafa í huga þegar bíll til dæmis blotnar og vatnið leggst á bílinn, þá er komin tími á bónhúð. Ef nægt bón er á bílnum þá festist vatnið eða rigningin ekki á bílnum. Það fer nefnilega mjög illa með lakkið þegar tjaran af götunum fær að liggja lengi á bílnum, þá er bíllinn fljótari að ryðga,“ bætir hann við. „Þú færð í raun meira fyrir vel hirtan bíl þegar þú selur hann ef lakkið er flott. Nýbónaður bíll er líka bara fallegri og það fer mun betur með bílinn,“ segir Einar að endingu.

Fyrir þá sem ekki sjá fyrir sér að dúlla sér við að þrífa bílinn sinn í vor eða sumar þá er alltaf hægt að heyra í honum Einari Árna og fá hann til að græja bílinn. Hægt er að finna hann á Facebook undir Einar Árni Pálsson og senda honum skilaboð.

  • Gott að eiga í bílaþrifum:
    Háþrýsidæla
  • Þrýstibrúsi fyrir sápu eða fötu
  • Svamp
  • Þvottahanska
  • Þurrhandklæði
  • Bursta fyrir felguþrif
Líkar þetta

Fleiri fréttir