adsendar-greinar Heilsa
Sissa. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Á leið til Bandaríkjanna í meðferð sem gæti bætt líf hennar svo um munar

Sólveig Sigurðardóttir, eða Sissa eins og flestir þekkja hana, fékk heilablóðfall í september 2006 sem umturnaði lífi hennar. Sissa lamaðist í vinstri hlið líkamans auk þess sem það blæddi yfir á sjónsviðið hjá henni svo hún getur ekkert séð vinstra megin við sig. Ef allt gengur eftir gæti líf Sissu enn á ný tekið nýja stefnu en nú til betri vegar. Hún á bókaðan tíma í læknismeðferð í Bandaríkjunum 23. apríl næstkomandi sem gæti hjálpað henni að öðlast fyrri færni á ný.

Afgreitt með mígreni eða vöðvabólga

Sissa er fædd og uppalin á Akranesi og býr þar í dag en bjó í 16 ár í Grindavík. Hún hafði gengið milli lækna í marga mánuði, áður en hún fékk heilablóðfallið, vegna mikilla verkja í höfði. Alltaf voru verkirnir afgreiddir sem annað hvort mígreni eða vöðvabólga og fékk hún því bara lyf til að meðhöndla það. Þann 16. september 2006 breyttist allt þegar kom í ljós að verkirnir voru ekki vegna mígrenis eða vöðvabólgu og það blæddi inn á heila Sissu. „Ég treysti bara því sem læknarnir sögðu og sættist á þessar ástæður fyrir verkjunum. Sjálfri datt mér engin önnur ástæða í hug og svo bara treystir maður læknum. En ég er sannarlega vitur eftir á og í dag veit ég að ég hefði átt að biðja um myndatöku og að blóðþrýstingurinn væri mældur og fleira en ég vissi ekkert af þessu þá. En ég reyni að vera vitur eftir á fyrir aðra núna og hika ekki við að benda fólki á að biðja um nánari skoðun hja læknum ef þess þarf,“ segir Sissa í samtali við Skessuhorn.

Allt eða ekkert

Eins of fyrr segir missti Sissa mátt í vinstri hlið líkamans og allt sjónsvið til vinstri, á báðum augum. Hún hefur í dag öðlast smávegis kraft aftur í líkamann en sjónin hefur ekkert lagast. „Það má segja að ég sé allt eða ekkert týpa og ég tók þetta heilablóðfall alla leið,“ segir Sissa með smá kímni í röddinni en þegar hún talar um veikindi sín gerir hún það með húmor og segir mikilvægt að geta hlegið að aðstöðu sinni. „Ég á alveg góðar sögur,“ segir hún og hlær. „Þegar ég fór í iðjuþjálfun á Grensás rúllaði ég inn í hjólastólnum mínum. Ég var spurð hvað ég vildi gera og mér fannst ég nú ekki geta gert margt og ákvað að fara bara aðeins í tölvuna. Mér var sagt að velja tölvu og ég rúllaði bara upp að þeirri næstu. Svo leit ég á lyklaborðið og hugsaði með mér að þetta væri nú alveg mín heppni, að lenda á tölvu með gallað lyklaborð en það vantaði alveg helminginn af því. Ég náttúrulega benti á þetta og þá var mér sagt að snúa hausnum bara aðeins og horfa betur, þá kom lyklaborðið í ljós, það var ekkert hálft heldur sá ég bara ekki vinstri helminginn,“ segir Sissa.

Mikil vinna að vera öryrki

Sissa hefur síðustu 14 ár ekki slegið slöku við og vann hart að því að fá einhvern mátt til baka og halda honum. „Þetta er alveg dagskrá hjá mér, stanslausar æfingar, sjúkraþjálfun og sund. En maður gerir það sem þarf í þessari stöðu, það er svo mikilvægt. En ég hefði aldrei trúað því hversu mikil vinna það er að vera öryrki,“ segir Sissa og hlær. Þrátt fyrir að hafa misst máttinn í hluta líkamans segir Sissa það vera skerta sjónin sem hamli henni mest og hún vonist til að fá aftur. „Sjónin skiptir bara svo miklu máli. Eins og fyrst þegar ég var að byrja að ganga á ný gaf ég engan gaum að því sem var vinstra megin við mig og slóst ég því í allt sem var vinstra megin við mig. Þetta truflar mann töluvert við að reyna að ganga, jafnvægið verður helmingi minna og maður er einhvern vegin í þoku,“ útskýrir hún. Sissa hefur mikinn áhuga á myndlist og fór á námskeið eftir heilablóðfallið. Þar málaði hún mynd og kallaði svo alsæl á kennarann þegar hún hafði lokið við myndina. „Ég var þarna þvílíkt ánægð með mig að vera búin með myndina en kennarinn kom svo og spurði hvor ég vildi ekki klára. Ég skildi ekkert í honum og spurði hvað hann væri nú að meina, ég væri sko búin með þessa mynd. Þá þurfti ég bara aðeins að snúa höfðinu til að sjá vinstri helminginn af myndinni, sem ég var bara alls ekkert búin með,“ segir Sissa og hlær.

Vonar að hún geti keyrt á ný

Sissa er brött þegar blaðamaður Skessuhorns heyrði í henni og eins og fyrr segir hafði hún mikinn húmor fyrir ástandinu. „Maður venst þessu og lærir að maður þurfi að snúa hausnum meira til að sjá. En vissulega vill maður samt gera allt til að fá meiri færni og meiri sjón og þess vegna er ég að fara í þessa meðferð til Bandaríkjanna. Ég vona alveg sérstaklega að ég fái sjónina aftur því þá gæti ég keyrt bíl og það myndi gera mig mikið frjálsari. Öll börnin mín búa fyrir sunnan og ef ég gæti keyrt gæti ég bara kíkt í heimsókn til þeirra þegar ég vil, verið uppáþrengjandi amman sem er alltaf að detta inn í heimsókn,“ segir hún og hlær, en Sissa á ellefu barnabörn sem hún vildi óska að hún gæti varið meiri tíma með.

Kostnaðarsöm meðferð

Læknameðferðin sem Sissa ætlar í var uppgötvuð fyrir tilviljun og þar sem læknirinn sem framkvæmir hana er venjulegur heimilislæknir, en ekki heilataugasérfræðingur, er meðferðin ekki viðurkennd og kostar því meira. „Þetta er í raun bara ein sprauta þar sem gigtarlyfi er sprautað inn í mænugöngin og svo er manni snúið og efnið látið flæða upp í heila. Læknirinn sem framkvæmir þetta uppgötvaði meðferðina þegar hann var að reyna að hjálpa sjúklingum með mígreni,“ útskýrir Sissa. Sprautan sjálf kostar eina milljón króna og svo þarf Sissa sjálf að borga fyrir ferðalagið og uppihald fyrir sig og frænku sína sem fylgir henni út. „Allt svona er ótrúlega dýrt í Bandaríkjunum. Maður hefur séð í bíómyndum hvernig heilbrigðiskerfið þar virkar fyrir þá sem ekki eru með tryggingu í landinu en ég ímyndaði mér aldrei að þetta væri svona í alvöru, en það er það. Bara símaviðtal við læknirinn þar sem ég bókaði tímann og hann sagði mér hvað ég ætti að gera, kostaði mig hundrað þúsund krónur.“

„Hún Andrea er engill í mannsmynd. Það er ótrúlegt hvað ein manneskja getur áorkað. Hún er svo hlý og góð manneskja og maður finnur umhyggjuna streyma frá henni,“ segir Sissa. Hér er Andrea að selja lakkrís en hún safnar nú fyrir Sissu.

Andrea safnar

Andrea Björnsdóttir, Skagamaður ársins 2019, ákvað nýlega að hefja söfnun fyrir Sissu til að hjálpa henni að komast út. Andreu þekkja margir en hún hefur selt lakkrís og annað nammi til styrtar góðum málefnum á Akranesi síðustu árin. „Hún er engill í mannsmynd. Það er ótrúlegt hvað ein manneskja getur áorkað. Hún er svo hlý og góð manneskja og maður finnur umhyggjuna streyma frá henni,“ segir Sissa. Fyrirhuguð ferð til Bandaríkjanna er 21. apríl en eins og ekki hefur farið framhjá neinum hefur COVID-19 sett strik í reikninginn hjá öllum þeim sem ætla að ferðast til Bandaríkjanna núna. Landið er lokað fyrir Evrópubúum en Sissa segist binda vonir við að landið verði opnað aftur áður en hún á flug út. Aðspurð segist hún vonast til að geta farið út í september ef hún kemst ekki á tilsettum tíma í næsta mánuði. „Ég stefni auðvitað á tímann minn í apríl og krossa fingur og vona að það hafist,“ segir hún.

Þakklát fyrir stuðninginn

Í ljósi aðstæðna í heiminum getur blaðamaður ekki annað en spurt Sissu hvaða áhrif COVID-19 hefur á hennar líf, að undanskilinni þeirri hættu að hún missi af meðferðinni sinni í næsta mánuði. „Ég hef ekki alveg sett mig í sóttkví en vissulega væri það slæmt ef ég smitast, bæði því þá gæti það komið í veg fyrir að ég komist út og svo er ég náttúrulega veik fyrir. En ég passa mig að vera ekki óþarflega mikið innan um fólk og gæti vel að handþvotti og vona það besta. Ég er að hugsa um að fara samt og láta kíkja hvort ég sé með veiruna, ég mun allavega gera það áður en ég fer út,“ segir hún brött. Þá vill Sissa þakka öllum sem hafa lagt henni lið svo hún geti komist út í meðferðina en hún bindur miklar vonir við að öðlast betra líf á eftir. „Ég er svo þakklát fyrir allan stuðninginn og allt sem fólk er tilbúið að gera fyrir mig. Margt smátt getur sannarlega gert kraftaverk og það er alveg með ólíkindum hvað fólk getur gert þegar það kemur saman,“ segir Sissa þakklát.

Þeir sem vilja styðja Sissu svo hún komist í meðferðina geta keypt sælgæti af Andreu eða lagt inn á reikning Sissu: 0146-26-20207, kennitala: 020761-4239.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi... Lesa meira