Velferðarmálin verða ætíð í öndvegi

Einar Brandsson

Velferðarmál er málaflokkur sem í eðli sínu snertir alla íbúa sveitarfélaga. Málefni fatlaðra eru þar á meðal en það var árið 2011 sem sá málaflokkur fluttist frá ríki til sveitarfélaga. Frá fyrsta degi hafa Akurnesingar sinnt þessum málaflokki af fremsta megni og í samræmi við skyldur okkar og gott betur. Besti mælikvarðinn á þá góðu þjónustu er allt það góða fólk sem flutt hefur til Akraness til þess að njóta okkar góðu þjónustu. Vissulega er það krefjandi verkefni að mæta öllum þeim ólíku þörfum sem þarf að sinna en það hefur okkur tekist. Ekki síst vegna okkar góða og hæfa starfsfólks.

Við yfirfærslu málaflokksins fylgdu ákveðnar tekjur frá ríkinu til sveitarfélaganna. Reynslan síðan yfirfærslan átti sér stað hefur hins vegar leitt í ljós að tekjurnar hafa ekki verið í takti við þau verkefni sem færð voru yfir og þau verkefni og kröfur sem hafa bæst við síðar. Sú umræða má hins vegar aldrei beinast að þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Þetta er verkefni sem þarf að leysa og það gera Skagamenn.

Mörg verkefni bíða okkar og skal þar fyrst nefna uppbyggingu Samfélagsmiðstöðvar og frekari uppbyggingu íbúða fyrir fatlað fólk.

Um þau skref hefur náðst góð samstaða í bæjarstjórn. Það má hins vegar alltaf gera betur og í þessum málaflokki megum við ekki sofna á verðinum. Okkur getur greint á um leiðir en markmiðið verður alltaf að velja farsælustu leiðina. Málefni fatlaðs fólks mega aldrei verða pólitískt bitbein.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa sem fulltrúi í Velferðar- og mannréttindaráði unnið að málefnum fatlaðs fólks og það mun ég gera áfram fái ég til þess stuðning.

Þess vegna óska ég þess kjósandi góður að þú setjir X við D – fyrir Akranes.

 

Einar Brandsson

Höf. skipar annað sætið á lista Sjálfstæðismanna á Akranesi.