Um vegagerð á Þ-H leið í Gufudalssveit

Kristinn Bergsveinsson

Undanfarna daga hef ég reynt að átta mig á neikvæðum umsögnum um leiðina Þórustaðir-Hallsteinsnes sem Vegagerðin velur til lagningar vegar um Gufudalssveit. Leiðin er búin að vera á svæðisskipulagi Reykhólahrepps í tæp 20 á en á aðalskipulagi frá árinu 2009. Þar var tekið fram að veglína yrði ákveðin af Vegagerðinni enda var vegamálastjóri Snæbjörn Jónsson með í ráðum. Skipulagsstofnun neitaði að samþykkja aðalskipulagið sem Svandís Svavarsdóttir samþykkti. Það var með ótrúlegum viðhengiskláfa sem ég tel orka tvímælis að standist lög. Sveitarfélagið mátti t.d. ekkert gera án þess að borið væri undir Skipulagsstofnun.

 

Þverun Gilsfjarðar var góð framkvæmd

Það sem einstaklingar segja um skaðsemi vegarins er yfirleitt rakalaus þvættingur og því ekki til umræðu. En þegar skipulagsstjórinn rökstyður neikvæða afstöðu sína þá blöskrar manni. Nú er sjónum beint að lífríki í fjörum og sjó og allt talið í voða. Athugið setlögin, sandur og leir í fjörum, hvaðan eru þau komin? Á hverju vori vaxa árnar og rífa niður mold og aur og bera til sjávar. Síðan myndast setlög sem næra lífríkið. Það er fáránlegt að halda að grugg sem verður til við framkvæmdir tímabundið valdi einhverjum spjöllum á lífríki fjarðarins. Þegar Gilsfjörður var þveraður heyrðust ramakvein. Örn og rauðbrystingar taldir í stórhættu. Rannsóknir nárrúrufræðings fyrir og eftir þverun sýna m.a. að á meðan framkvæmdir stóðu og eftir þær komur ernir upp mun fleiri ungum en áður bæði í Gilsfirði og Króksfjarðarnesi. Rauðbrystingar á nálægum svæðum hafa aldrei verið fleiri en eftir þverun. Allt tal um að þverun Gilsfjarðar sé umhverfisslys er órökstutt. Þær breytingar sem orðið hafa á náttúrunni eru flestar til bóta. Margfalt fleiri ferkílómetrar lands þorna nú á fjöru utan vegar en fóru undir sjó innan vegar. Utan vegar og á garðinum þar sem áður var sjór vex nú þang. Hraunin á Skálanesi og vegurinn inn Kollafjörð fer víða með fjörum og fellur vel að landi og sjó. Klettsháls er veðravondur farartálmi. Gróður og kjarr í Skálmardal og Vattardal eru vaxin upp á vegarbrún. Vegurinn yfir Mjóafjörð og Kjálkafjörð er til fyrirmyndar og í fjörum í sama verndarflokki og Þ-H leið sem Vegagerðin vill fara í Gufudalssveit.

 

Sannleikanum hagrætt

Afstaða Skipulagsstofnunar er stórfurðuleg. Ásdís Hlökk forstjóri Skipulagsstofnunar var í viðtala á Rás-1 skömmu fyri páska. Hún fullyrti að dómur Hæstaréttar bannaði lagningu vegar eftir Þ-H leiðinni. Þarna er sannleikanum hagrætt, samkvæmt öllum gögnum Vegagerðarinnar er fullyrt að Jónína Bjartmars hafi ekki mátt nota (skv. dómnum) orðin „meira umferðaröryggi“ á vegi á láglendi. Í sama viðtali fullyrðir Ásdís Hlökk að Reykhólahreppur þurfi að gera og auglýsa nýtt skipulag sem tæki a.m.k. sex mánuði. Svona stjórnsýsla á engan rétt á sér og er eingöngu ætluð til þess að tefja og koma í veg fyrir framkvæmdir. Þarna er lítið hugsað um skólabörnin, fluningabíla og fólkið sem sækir vinnu til Reykhóla og fer um erfiða hálsa daglega. Þau bíða eftir mannsæmandi vegi.

Vegagerðin hefur ákveðið að hanna allar þrjár brýr yfir firðina 20-30 metra lengri en áður var áformað. Brúarop verða stærri, straumur minni og setlagarof því hverfandi lítið.

Veglínan á Þ-H leið er gjörólík B leið. Reynt er að fylgja sveitavegaslóðum að Gröf og farið yfir melinn um 100 m frá forna bæjarstæðinu. Síðan eftir gróðursettu klettabelti á sveitavegslóða sem liggur að sumarhúsi eiganda Teigsskógar. Farið er yfir land Teigsskógar rétt neðan við símalínu á landamerkjum við Hallsteinsnes, þaðan eftir gróðurlitlum klettum niður og út yfir Grenitrésnes. Þaðan farið um klettavoga að vegi sem þverar Djúpafjörð. Engar efnisnámur verða á Þ-H leið út að Hallsteinsnesi. Ég vil spyrja hvaða fornminjar eru í hættu á þeirri leið sem ég hef nú rekið og er kölluð Þ-H leið sem merkir Þórisstaðir-Hallssteinsnes?

 

Hafa beðið eftir þessum vegi

Ég á ekki von á öðru en Vegagerðinni takist að hanna og leggja vegi og brýr þannig að sómi verði að. Þeir sem eru hræddir um annað ættu að fá sér bíltúr vestur í Flókalund og taka vel eftir hvað vegir eru vel hannaðir og frágangur til fyrirmyndar. Eigendur Flókalundar myndu taka vel á móti ykkur. Þau hafa beðið eftir þessum vegi í áratugi eins og fjölmagir aðrir á sunnanverðum Vestfjörðum. Nú langar mig að segja frá því hvað fólkið í minni gömlu Gufsu er að bauka. Fjárfjöldinn er mín ágiskun og ekki nákvæmur. Fólkið, mest þriðja kynslóð frá því við bjuggum í Gufudal, býr við sömu vegi frá 1953 en þjónustan er betri. Við vorum lokuð inni eins og rakkar í búri frá hausti til vors. Flug og sjóferðir björguðu málunum.

Á Skálanesi búa fullorðin hjón, konan sækir vinnu á Reykhóla með sauðfjárbúi með um 200 kindur. Í Gufudal búa hjón með fjögur börn, maðurinn fer til vinnu á Reykhóla í Þörungaverksmiðjuna, ásamt fjárbúi sem telur 400-450 kindur. Í fremri Gufudal búa þrjár fjölskyldur, eldri hjón sem eru oftast með börn í fóstri fyrir Reykjavíkurborg og sinnir maðurinn þar eftirliti og snjómokstri á Kletthálsi. Eiga þessi hjón tvær dætur sem þarna búa með fjölskyldum sínum. Önnur fjölskyldan er með þrjú börn og stundar eiginmaðurinn tamningar en eiginkonan starfar við félagsmál unga fólksins í sveitarfélaginu. Hin fjölskyldan er með eitt barn og keyrir maðurinn flutningabíl Tálknafjörður – Reykjavík. Öll reka þau svo félagsbú með sauðfé sem telur 800-1000 kindur. Veiðfélag er um Gufudalsá og á það 100 fermetra veiðihús. Áin er leigð stangveiðifélagi. Í Djúpadal búa hjón með tvö börn. Maðurinn sér um snjómokstur og hálkuvarnir á Hjalla og Ódrjúgshálsi. Þar er heitt vatn og sundlaug ásamt ferðaþjónustu, sauðfé er 400-450. Skólabíll sækir börnin bæði í leik- og grunnskóla. Bílstjórinn er traustur og gætinn, snarræði hans forðaði a.m.k. einu sinni að stórslys yrði, þegar vindhviða feykti bílnum útaf í hálku og roki á hættustað.

 

Ekkert fuglalíf í hættu

Allt tal um hættu fyrir örn er órökstutt komi til vegagerðar. Í fyrsta lagi hefur örn ekki orpið á svæðinu í 6-8 ár. Kristinn Haukur merkti þá unga í Gróuneshólma. Ég man ekki til þess að nokkurn tímann hafi örn orpið á Hallsteinsnesi. Vegalengdir frá veglínu er rúmir einn km að gamla hreiðurstæðinu en um hálfur km að hólmanum. Mesti skaðvaldur fyrir allt fuglalíf er þegar Kristinn Haukur kemur á flugvél í lágflugi í 10-20 hæð, æðarkollur fljúga í ofboði út á á sjó og svartbakur notar tækifærið og rífur upp æðarkolluhreiðrin (Heimild æðarbændur).

 

Sumsstaðar gengið vel

Nefna má dæmi um vegagerð þar sem vel hefur gengið. Berum saman tvær leiðir: Eiði, Mjóifjörður, Kjálkafjörður og Kinnarstaðir – Kraká. Báðar leiðirnar eru á náttúrminjaskrá og lög um vernd Breiðarfjarðar gilda um báða veghlutana. Umhverfismat og undirbúningur fyrir vestan tók líklega jafnmargar vikur og árin hér að austanverðu. Orsökin er fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem eiga að stjórna og greiða fljótt og vel úr málunum eins og gerðist fyrir vestan. Þar á líklega hlut að máli sveitarfélagið Vesturbyggð.

 

Gagnrýni á D2 leið

Þorskafjörður er þveraður rétt utan við raflínu og óþarfi að skerða túnin á Þórisstöðum. Þau eru nýtt til beitar og heyskapar að sumri, það eru bændur frá Djúpadal að nýta jörðina.

Þar sem jarðgöng eru áformuð virðist margt benda til að þarna sé móberg. En niður við sjó er hentugt berg. Basaltlög sem eru 25-35 m að þykkt. Í mýrarlandi verða umtalsverðar breytingar og sker hár vegur og há brú sig úr í þessu fallega landi.

En mér líst illa á sneiðinginn og ég hef áður gert alvarlegar athugasemdir og þær eru að engu hafðar. Talsverður langhalli er á sneiðingnum. Þar þarf því hálkuvarnir. Sprengja verður fyrir veginum alla leiðina, líklega 1-2 kílómetra að lengd. Eftir að vinnu líkur verður hátt berg að ofan tugir metra að hæð, fyrir neðan verður urð og grjót. Berjalautir og birkikjarr hverfur.

Þetta er lang snjóþyngsta leiðin sem lögð hefur verið til. Til dæmis kom þarna úr hlíðinni stórt flóð í janúar 1995 (Grund). Einn eða tveir rafstaurar brotnuðu, fólkið í Gufudal varð að hýrast í kulda og myrkri á aðra viku.

Óhemju magn af efni þarf í hálsgilið. Farið er með veginn í gegnum birkikjarr frá efst á Ódrjúgshálsinum að Gufufirði. Þar er farið í jaðri Hjálparvakar yfir miðjan fjörðinn þar sem lífríki er einna mest. Í landi Hofsstaða er ekki verið að víla fyrir sér að skemma sem mest fyrir bændum. Landið er skáskorið, beitiland og tún. Jarðeigendur í Gufudal í samráði við eigendur Hofsstaða nytja landið til beitar og sláttar. Er svo komið að Melanesu þar sem vegur verður byggður upp að slitlagi utan við Kraká.

 

Að lokum

Ég tek undir með Einari Kristni fráfarandi alþingismanni sem sagði: „Þetta mál er löngu hætt að snúast um náttúrvernd og hefur aldrei gert. Þetta er meinbægni (illgirni).

Ég fullyrði að stjórnsýsla skipulagsmála tilheyrir nú þeim flokki með neikvæða afstöðu til Þ-H leiðar. Það er eins og Ásdís Hlökk hjá Skipulagsstofnun sé að vinna fyrir andstæðinga Þ-H leiðar, a.m.k. frá árinu 2006 þegar Skipulagsstofnun neitaði að samþykkja aðalskipulagið. Það er bagalegt. Fólkið á sunnanverðum Vestfjörðum þarf veg um Gufudalssveit og þótt fyrr hefði verið.

 

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal.

Fleiri aðsendar greinar