Troðið á íbúum Stykkishólmsbæjar

Lárus Ástmar Hannesson

Oft er talað um að sitja í meirihluta bæjarstjórnar sé að „vera við völd“.  Á mínum síðasta fundi í bæjarstjórn Stykkishólms í maí síðastliðnum sagði ég m.a. í mínu einhvers konar kveðjuávarpi að ég hefði alltaf litið á setu í bæjarstjórn sem þjónustuverkefni fyrir íbúa en ekki á neinn hátt að það snúist um völd.  Það eru þó möguleikar á að nýta sér stöðuna í meirihluta sem einhvers konar „völd“ ef fara á vafasamar leiðir við ákvarðanatöku. Þó svo það sé ekki alltaf létt að vera í bæjarstjórn og oft þurfi að taka erfiðar ákvarðanir þarf alltaf að vera í forgrunni virðing fyrir íbúum og stjórnsýslu. Það þarf að gefa þau skilaboð að það sitji allir bæjarbúar við sama borð, vera heiðarlegur og auðmjúkur í málflutningi og gjörðum. Það þarf að kynna sér málin, ekki láta segja sér hvað sé rétt og hvað sé rangt. Það þarf að hlusta, ekki síst á aðra bæjarfulltrúa þó þeir teljist í svokölluðum „minnihluta.“

Þó svo ég hafi, í bili að minnsta kosti, yfirgefið sveitarstjórnarsviðið eftir 16 ár hef ég mikinn áhuga og fylgist vel með. Hvatinn að þessari grein er ekki af jákvæðum toga þó svo að mín von sé að hún mögulega nýtist bæjarfulltrúum meirihlutans á farsælan máta. Á þessum mánuðum sem liðnir eru frá kosningum hafa of mörg mál komið upp sem orka tvímælis.  Ég ætla hér að fjalla um eitt þeirra mála og það stærsta en það er nálgun bæjarfulltrúa H-listans á umsókn Asco Harvester um byggingarleyfi á þangvinnsluverksmiðju við Nesveg 22a.  Um er að ræða hús sem verður tæpir 1000 fermetrar að stærð og um 10 metra hátt.  Fyrirhugað er að vinna um 5000 tonn af sjávargróðri í verksmiðjunni sem er í um 100 metra fjarlægð frá því íbúðarhúsi sem næst stendur. Fyrirhuguð bygging er í mikilli nálægð við Skipavík og mun loka leiðinni inn á hið fallega Búðarnes að óbreyttu.

Skoðum fyrst þá afgreiðslu bæjarstjórnar sem þið gjarnan vitnið til og byggið ykkar mál á. Fundurinn er númer 636 og er haldinn þann 21. febrúar sl.  Í fundargerð stendur:

“Ósk Asco Harvester ehf. um samstarf vegna atvinnuuppbyggingar

Málsnúmer 2202015

Lagt fram erindi frá Asco Harvester sem felur í sér umsókn um lóðina Nesveg 22a til vinnslu, rannsókna og kynninga á framleiðslu þörunga, ásamt ósk um samstarf um atvinnuuppbyggingu.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Asco Harvester ehf. í samræmi við erindi félagsins.

Bæjarráð leggur áherslu á að fulltrúar Asco Harvester ehf. kynni áformin fyrir íbúum og að endanlegar útfærslur verði í sem mestri sátt við umhverfi, íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Afgreiðsla bæjarráðs er lögð fram til staðfestingar í bæjarstjórn.”

Það er tvennt í þessari afgreiðslu sem hljómar ekki við málflutning H-listans.  Fyrra atriðið er að þarna er klárlega ekki verið að samþykkja lóðarúthlutun. Ekki er verið að vinna í sátt við umhverfi, hvað þá íbúa. Síður en svo, enda er troðið á okkur íbúunum á skítugum skónum. Nánar um það síðar. Síðari punkturinn er sá sem snýr að þeim samningi sem bæjarstjóra er falið að gera. Enginn samningur hefur verið lagður fram en það er grunnforsenda þessa máls að allir þættir uppbyggingarinnar verði skoðaðir áður en ákvörðun verði tekin.

Förum aðeins yfir hvernig troðið er á okkur íbúum sem búum í nágrenni við fyrirhugaða verksmiðju.  Það er ákveðið að einungis þurfi að grenndarkynna verksmiðjuna. Það er einkennilegt að telja það nægjanlegt hvað þá að grenndarkynna einungis fyrir Skipavík og lóðareiganda aðliggjandi lóðar þar sem engin starfsemi er.  Við íbúarnir skiptum engu máli. Það er svo haldinn kynningarfundur fyrir okkur íbúa í Nestúni þann 8. ágúst og við fengum einn og hálfan sólarhring til að bregðast við. Ekkert tillit var tekið til okkar athugasemda og það leið mánuður þar til svör bárust. Okkar óskir hafa verið bornar fram af kurteisi og hófsemi. Það er eðlilegt að fólk vilji verksmiðju af þessu tagi fjær íbúðabyggð en til stendur. Að lágmarki er að verða við okkar óskum að framkvæmdin fari í deiliskipulagsferli.  Það er ekki nægjanlegt að framkvæmdaraðilinn segi okkur hvernig starfsemin verði og hvað henni fylgir. Það er algjör lágmarks nálgun að fagaðilar meti starfsemina með aðkomu íbúa í gegnum deiliskipulagsferli.  Er það ekki sjálfsögð og eðlileg ósk?  Með deiliskipulagi verður til rammi um starfsemina og kröfur um mögulega hljóð- og loftmengun liggja fyrir.

Tökum þá hinn þáttinn sem er að bæjarstjóra er falið að ganga til samninga við Asco Harvester.  Ítrekað hefur verið spurt um þann samning sem bæjarstjóra var falið að gera við framkvæmdaraðila. Sá samningur yrði svo lagður fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu. Enginn samningur virðist hafa verið gerður þrátt fyrir að fjölmörg atriði séu óljós. Hvað kæmi fram í slíkum samningi sem óvissa ríkir um?  Tökum nokkur dæmi. Hvar á vegurinn niður að verksmiðjunni að liggja? Hver greiðir fyrir vegagerðina og hver er kostnaðaráætlunin? Hvernig verður útfærslan með fráveitu frá verksmiðjunni? Hver greiðir fyrir hana og hver er kostnaðaráætlunin? Hvernig verður með vigtun hráefnisins? Verður ekið með það niður að hafnarvog við Hafnargötu eða verður að byggja nýja vog við verksmiðjuna? Hver greiðir fyrir hana og hver er kostnaðaráætlunin? Eru einhverjar aðrar kostnaðarsamar framkvæmdir við höfnina sem verður að fara í? Hverjar verða væntanlegar tekjur hafnarinnar í gegnum löndunargjöld og fleira? Hverjar verða tekjurnar vegna lóðar- og gatnagerðargjalda?

Önnur rök sem þið hafið notað í umræðunni en standast ekki skoðun.

Þið segið að framkvæmdin þurfi ekki að fara í deiliskipulagsferli enda hafi engin bygging sem er á þessu skipulagssvæði farið í deiliskipulag. Þetta gildir ekki sem rök. Aðalskipulagið sem er í gildi er frá 2002 en engin bygging hefur risið á svæðinu frá því árið 2001. Í Aðalskipulaginu stendur í grein 3.3.8 Athafnasvæði/Hafnarsvæði:

„Markmiðið er að hafa tiltæk svæði fyrir sem fjölbreyttasta atvinnustarfsemi. Stefnt er að enn betri nýtingu núverandi hafnar- og athafnasvæði og er deiliskipulagning þeirra verkfæri til þess. Í deiliskipulagi verður tekið á nýtingu svæðanna með tilliti til hagkvæmni og landslags og aðlögunar að bæjarmyndinni.“ Samkvæmt þessari grein verður framkvæmdin að fara í deiliskipulagsferli.

Annað sem nefnt er að það sé nú þegar verksmiðja sem vinni sjávargróður á svæðinu. Hvernig hægt er að nota það sem rök er mér ráðgáta. Það vita allir að sú vinnsla vinnur sáralítið hráefni á ári hverju og það lítið að ekki hefur verið talin ástæða fyrir að innheimta löndunargjöld af því hráefni sem tekið er til vinnslu. Í fyrirhugaðri verksmiðju er áætlað að vinna 5000 tonn á ári. Ein rökin eru á þá leið að þarna hafi verið steypustöð. Það er vissulega rétt að á þessari lóð var steypustöð með því sem henni tilheyrði. Lítil starfsemi var í stöðinni flesta daga og lítil sem engin á veturna. Stöðin hafði auk þess einungis starfsleyfi til bráðabirgða. Spurningin sem þarf að spyrja er; yrði það talið eftirsóknarvert að á þessari lóð yrði sett upp steypustöð núna árið 2022 en ekki að nota sem rök það sem var þarna fyrir árum og áratugum. Það má í því samhengi segja að kýr og kindur voru í húsum á barðinu fyrir ofan lóðina.

Dapurlegast hefur þó verið fyrir mig sem íbúa að hlusta á rökin sem eru að „ekki megi tefja verkefnið“ með því að setja það í deiliskipulagsferli. Það má sem sagt frekar troða á okkur íbúum heldur en láta fjárfesta fara eðlilega og vandaða leið með framkvæmdina. Ekki var það nú til að létta brúnina að heyra bæjarfulltrúa segja „þessir aðilar geta farið annað með verksmiðjuna og það séu margir sem vilji fá svona uppbyggingu.“ Enn og aftur, hafið ykkur hæg annars gætu fjárfestarnir hætt við að byggja verksmiðjuna við Nesveg 22a. Mér finnst sorglegt að heyra þennan hræðsluáróður frá ungu fólki.

Annað sem kom fram á síðasta bæjarstjórnarfundi frá bæjarfulltrúa var á þá leið að hann, bæjarfulltrúinn, hefði þá trú og von að framkvæmdaaðilar segðu rétt frá varðandi væntanlega lyktar- og hljóðmengun. Mikið er þetta nú ófaglegt. Þær systur Von og Trú eru vissulega ákjósanlegir ferðafélagar í lífinu en alveg óþarft að bendla þær við málið þar sem faglegt ferli eins og deiliskipulagsferli setur ábyrgðina á fagfólk sem leggur línur og rammar inn. Systurnar Von og Trú eru ekki gjaldgengar í hljóð- eða lyktarmælingum.

Einnig er vert að nefna og skýtur skökku við að á sama tíma og verið er að hanna fallegt Víkurhverfi með vistgötum og fleiru sem á að gera svæðið eftirsóknarvert til búsetu er verið í hinum enda bæjarins að undirbúa verksmiðju 100 metra frá íbúðabyggð þar sem vinna á 5000 tonn af sjávargróðri og verkið er ekki svo mikið sem grenndarkynnt fyrir íbúum. Framkvæmdin gæti haft veruleg áhrif á verðmæti húsanna í nágrenninu og gert þau illseljanleg.  Hver ætlar að bera ábyrgð á því og bæta íbúum það? Kannski Von og Trú?  Hvernig var þetta með skítugu skóna!

Enn eitt sem er undarlegt er það að á síðasta kjörtímabili var settur saman vinnuhópur til að skoða mögulegar staðsetningu sambærilegrar starfsemi. Vinnan fór af stað þegar tillögur voru uppi um að byggja álíka verksmiðju á hafnarsvæðinu í Skipavík. Niðurstaða vinnuhópsins var að það væri ekki ráðlegt að setja upp slíka verksmiðju á þeim stað heldur bæri að skipuleggja svæði fjarri íbúðabyggð. Núna hins vegar telja fulltrúar meirihlutans að það sé ákjósanlegt að setja upp verksmiðju þó hún sé einungis hinum megin við Skipavík, 100 metra frá íbúðabyggð. Hvað er það sem hefur breytt þessari stefnu?  Er það mögulega að fjarlægðin við Sundabakkann er meiri? Þetta er ekki létt að skilja.

Nei, þetta er allt hið versta og undarlegasta mál. Vegna þessara vinnubragða hef ég og fleiri kært málið til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Það er ekki með gleði í sinni sem ég sendi inn kæru á bæinn minn og gjarnan hefði ég viljað eyða tímanum í annað en að skoða þetta mál og bregðast við. Því miður er þetta leiðin sem fara verður þar sem bæjarfulltrúar H-listans, meirihlutans í Stykkishólmi, hlusta ekkert á óskir okkar íbúanna um faglega meðferð. Það er mjög jákvætt að fá uppbyggingu í atvinnumálum og jákvætt að þessir aðilar vilji byggja upp hér í Hólminum. Uppbyggingin verður að fylgja eðlilegri stjórnsýslu en það óvandaða ferli sem meirihlutinn hefur valið að fara og rakið er hér að framan mun að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á framvindu verkefnisins. Vonandi munu æðri stjórnsýslustig beina þessum áformum á faglega braut.