Þriðja kynslóðin á Akranesi

Jóhannes Finnur Halldórsson

Í febrúar 2017 birtist í fréttabréfi FEBAN hugleiðingar og áskoranir til bæjaryfirvalda um uppbygging og stefnu í málefnum 60+.  Það er full ástæða til að rifja þessar hugmyndir upp.  Það er ánægjulegt að sjá í ákvörðunum síðan þá, að bæjaryfirvöldum er greinilega annt um þennan hóp og hefur verið að leggja áherslu á framþróun málaflokksins og stefnir í að sum þessara markmiða náist fljótlega. En til frekari áhersluauka, þá vil ég benda á að frá árinu 2015 hefur íbúum hér á Akranesi fjölgað um 7,3%, en íbúum 60 ára og eldri hefur fjölgað um 15,3% (viðmiðun er 1. janúar), þannig að það verður að halda vel á spöðunum svo við drögumst ekki aftur úr sem gott samfélag fyrir þriðju kynslóðina.

En eftirfarandi var skrifað á sínum tíma í ofangreint fréttbréf í áskorunartón til bæjaryfirvalda:

Nr. 1. Staðið verði við að þjónustumiðstöð eldri borgara verði byggð á Dalbrautarreitnum í tengslum við uppbyggingu svæðisins.

Nr. 2. Akraneskaupstaður skuldbindur sig til að vinna að því að byggja upp fimm leiðir, eða „stoðir“ fyrir frístundir 60+ og sem jafnframt getur nýst öðrum.

Þær verði:

2.1. Frístundastoð. Hér yrði um að ræða samstarfssamning um uppbyggingu frístundahúss og félagsaðstöðu í samvinnu við Golfklúbbinn Leyni.

2.2.  Íþróttastoð.  Gert verði ráð fyrir athafnarými til heilsueflingar sérstaklega fyrir þriðju kynslóðina í fyrirhuguðu fimleikahúsi.

2.3.  Handverksstoð. Komið verði upp aðstöðu til allskyns handverks með tækjum og tólum til að skapa verk og gera við hluti úr tré, málmi, gleri og  einnig þar sem rafmagn gæti komið við sögu.

2.4.  Kennslu- og menntastoð. Frátekið verði sérstakt rými til að sinna tölvukennslu og námskeiðum fyrir eldri borgara. Það þarf að vera sérstaklega til þess gert og án þess að þurfi að vera með tilfæringar á búnaði í hvert skipti.

2.5. Salarstoð.  Það hefur löngum legið fyrir að mikil þörf er á viðunandi sal til að halda stærri samkvæmi, þorrablót, fjölmenna fundi og árshátíðir svo að eitthvað sé nefnt. Það má nefna að salir eru ónotaðir í húsnæði Hjúkrunarheimilisins Höfða, en það kemur ekki til skemmtanahalds þar, miðað við óbreyttan rekstur. En þar er eldhús, sem gæti sinnt öllum stofnunum bæjarins. Bæjarfélag af þessari stærðargráðu, þarf að geta boðið upp á eitthvað fleira en vita og íþróttahús til tónleika– og skemmtanahalds.  Viljum við þó ekki gera lítið úr þeim skemmtistöðum sem starfa í bænum. Tónberg stendur auðvitað fyrir sínu.

 

Jóhannes Finnur Halldórsson

Höf. er 60+, á óvissum aldri, og er íbúi á Akranesi

 

 

Fleiri aðsendar greinar