Svar við opnu bréfi Þorsteins Jóhannessonar skurðlæknis

Jóhanna F Jóhannesdóttir

Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) er með samning við félag lækna sem sjá um að manna læknisþjónustu á heilsugæslustöðinni í Ólafsvík með verktökum sem félagið ræður til að taka að sér þjónustuna hverju sinni. Í gegnum þetta félag komstu sem verktaki á heilsugæslustöðina.

Samkvæmt skipuriti HVE og viðurkenndu verklagi er það framkvæmdastjóri lækninga, faglegur yfirmaður læknisþjónustu á HVE, sem annast samskipti við félagið vegna þjónustu lækna en ekki forstjóri. Ef eitthvað kemur upp á varðandi þjónustuna er það hlutverk forsvarsmanna félagsins að ræða við viðkomandi lækni. Þetta eru aðilarnir sem þú segir „einstakling sem ekki starfar á HVE“.

Framkvæmdastjóri lækninga ásamt framkvæmdastjóra fjármála áttu fund með þér í mars sl. þar sem því var m.a. komið á framfæri að starfsmenn heilsugæslunnar í Ólafsvík hefðu kvartað yfir samstarfinu. Þess var vænst að í kjölfarið yrði hægt að koma samskiptum í betra horf en það gekk ekki eftir.

Í framhaldi af fundi sem starfsmenn heilsugæslunnar óskuðu eftir með framkvæmdastjórn og ég sat ásamt framkvæmdastjóra fjármála í byrjun júní var ákveðið að afþakka frekara vinnuframlag af þinni hálfu og framkvæmdastjóra lækninga var falið að ræða þá ákvörðun við forsvarsmenn læknisþjónustunnar.

Það er fjarstæða og varla svara vert að ég reki „heilsugæslulækna“ hægri vinstri „vegna óánægju starfsfólks heilsugæslu ef því tekst ekki að setja á læknana hálsgjörð og fá að teyma, að eigin vild eins og rakka“. Vinna á heilsugæslustöð gengur út á góð samskipti og teymisvinnu (ekki teymingar!). Rangt er að læknir hafi verið látinn fara í fyrra vegna óánægju starfsfólks.

Í bréfinu er fullyrt að ég hafi ekki metnað til að koma til móts við óskir/þarfir umbjóðenda HVE um þjónustu. Þessu hafna ég, því mönnun þjónustunnar er eindregið áhersluatriði framkvæmdastjórnar. Áherslan er á að manna stöður lækna á heilsugæslustöðvum HVE með fastráðnum sérfræðingum í heimilislækningum en því miður hafa auglýsingar ekki skilað árangri enn sem komið er því erfitt reynist að fá lækna til starfa á landsbyggðinni. Þjónustan er því enn veitt með afbrigðum í formi verktöku sem vissulega hefur bjargað miklu en er ekki unnt að líta á sem varanlega úrlausn. Í ljósi þessa ætti það ef til vill að vera þér umhugsunarefni að vinnuframlag þitt í Ólafsvík skuli vera afþakkað á sama tíma og læknaskorturinn er jafn mikill og raun ber vitni.

 

Með kveðju,

Jóhanna F. Jóhannesdóttir, forstjóri HVE