Stór flokkur eða góður flokkur

Reynir Eyvindsson

Einn félagi minn tók brosandi á móti mér í vinnunni um daginn og sagði að nú sæist það að Sjálfstæðisflokkurinn væri besti flokkurinn. Það væru 34% sem ætluðu að kjósa hann.  Þetta var reyndar byggt á hæpinni könnun Fréttablaðsins um daginn. Þessi skoðun, að flokkur hljóti að vera bestur ef það eru margir sem kjósa hann, er merkileg.  Þessi félagi minn er ekki einn um þá skoðun. Gæði stjórnmálaflokka fara hinsvegar miklu heldur eftir því hvort þeir koma einhverju góðu til leiðar.

 

„Það vil ég að þeir ráði sem hyggnari eru“

Það er nefnilega alls ekki alltaf rétt sem meirihlutanum finnst.  Ólafur Pá, pabbi Kjartans Ólafssonar, lenti eitt sinn í hafvillum ásamt skipshöfn sinni. Menn voru ósammála hvert ætti að sigla. Stýrimaðurinn vildi eitt, en öll áhöfnin vildi annað. Þá sagði Ólafur: „Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð er þau koma fleiri saman.“  Þetta sannar ekki eitt eða neitt, en þetta var vel sagt. Við höfum fjöldann allan af dæmum um að meirihlutinn hafi haft rangt fyrir sér.  Flokkur Hitlers var kosinn með 33% atkvæða á sínum tíma.  Hann var langstærsti flokkurinn.  Fólk í Norður Kóreu er, held ég, í raun og veru hrifið af leiðtoga sínum, sem er harðstjóri og kúgari.  Nú eru tveir frambjóðendur að keppa um æðsta stjórnunarstarf í heiminum, annar virðist vera fullkominn fáviti, og hinn lagði til á sínum tíma að fara í Íraksstríðið, og hefur þegið háar fjárhæðir frá bönkum í Wall street.  Þriðji frambjóðandinn (Sanders) virðist alveg flekklaus, en komst ekki að. Við sjáum Berlusconi á Ítalíu. Við hristum hausinn yfir því hvernig þetta fólk kemst til valda, og getur haldið völdum.

 

Áróður og hræðsla

En ástæðan er máttur auglýsinganna og fjölmiðlanna. Og ekki síst hræðsla. Hræðsla við að aðrir sjái að maður er í „röngu liði“.  Allt þetta á við hér á landi. Hér eru auðmenn sem reka eina stjónvarpsstöð, Sjálfstæðisflokkurinn er með fastar útsendingar á annarri.  Búið er að planta Sjálfstæðismönnum í stjórnunarstöður hjá RÚV, Morgunblaðið er rekið af útgerðarmönnum. Hræðslan er mest í útgerðarplássunum, þar sem útgerðarmaðurinn ræður öllu um framtíð þorpsbúa. Þá getur það verið hættulegt að láta vita af því að maður starfi fyrir flokk sem vill að þjóðin fái sanngjarnan skerf af auðlindinni. Enda er fylgi hagsmunagæsluflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks mest á landsbyggðinni.

 

Að vinna kosningar eða vinna fyrir þjóðina

Ég vil biðja fólk um að fylgjast með umræðunum, skoða um hvaða upphæðir er að ræða, hvað skiptir í raun og veru máli. Því það skiptir miklu máli hver það er sem stjórnar landinu. Ég kýs flokk sem tapar oft í kosningum, en núna er fólk farið að sjá að aðal stefnumál Vinstri grænna: Opnari fjármál, jafnrétti og náttúruvernd, eru mikilvæg.  Stjórnmálin snúast ekki um að vera stærstur heldur að vera bestur.

 

Kveðja, Reynir Eyvindsson

Höf. er á lista VG fyrir næstu alþingiskosningar.