Opið bréf til forstjóra HVE, Jóhönnu Fjólu

Þorsteinn Jóhannesson

Ágæti forstjóri! Undirritaður vill byrja á að gera grein fyrir sér. Var starfsmaður heilsugæslu (HG) Akraness um þriggja ára skeið eftir samfellt 27 ára starf á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Eftir störf á Akranesi réði ég mig til starfa við HG Ólafsvíkur og hef starfað þar um 10 mánaða skeið, tvær vikur samfellt í hverjum mánuði og gert var ráð fyrir vinnuframlagi mínu a.m.k. út þetta ár. Mér fannst sem flestum íbúum Snæfellsbæjar félli það vel enda höfðu þeir búið við það „ástand“ að 8-10 læknar, sem komu eina viku í senn, höfðu sinnt læknisstörfum við heilsugæslu Ólafsvík undangengin ár og því búið við það óhagræði sem slíku fylgir. Lítil samfella, takmörkuð eftirfylgni og oft á tíðum byrjað „upp á nýtt“ að vinna upp „gömul“ vandamál. Reyndar var heilsugæslulæknir, sem um langt árabil hafði sinnt skjólstæðingum HG Ólafsvíkur, við góðan orðstír, látin fara, vegna óánægju starfsfólks heilsugæslu Ólafsvíkur og sjúkraflutningamanna þar, á síðastliðnu ári.

Í sumarfríi mínu um miðjan júlí sl. fékk ég símhringingu, ekki frá þér eða undirmanni þínum, heldur aðila starfandi utan HVE, með þeim skilaboðum frá þér; að minnar viðveru á Ólafsvík væri ekki lengur óskað! En það vantaði lækni í Borgarnes og væri ég velkominn þangað!

Eftir því sem ég kemst næst eftir viðræður við fjármálastjóra og lækningaframkvæmdastjóra HVE þá hafi undirskriftalisti starfsmanna HG Ólafsvíkur ráðið þessari ákvörðun þinni, sem þú varst ekki manneskja til að kynna mér sjálf, nei heldur gafstu það í hendur einstaklings, sem ekki starfar á HVE (Heilbrigðisstofnun Vesturlands). Lækningaframkvæmdastjóri HVE, við hvern, ég hef tvívegis rætt símleiðis eftir þessa uppákomu, segist vita lítið um þetta enda ekki verið á þeim fundi hvar þú tókst þessa ákvörðun. Hann hefur jafnframt staðfest við mig að flest hafi snúist til betri vegar á heilsugæslu Ólafsvíkur eftir að ég hóf þar störf, hann hefur og eins og fjármálastjóri, staðfest að ég væri velkominn til starfa á heilsugæslu Borgarness.

Forstjóri, þegar ég lít til baka og fer yfir stöðu læknamála í umdæmi HVE undangengin ár kemur upp í huga mér ferskeytla Káins (Kristjáns N. Júlíus), sem ber yfirskriftina Vísað úr vinnu:

Góður betri bestur

burtu voru reknir;

illur, verri, verstur

voru aftur teknir.

Að þú sem yfirmaður HVE skulir ekki hafa meiri metnað til að koma til móts við óskir/þarfir umbjóðenda HVE um þjónustu er til skammar. Nú er fjögurra vikna bið eftir tíma hjá heilsugæslulækni á Akranesi og óvíst um tímabókun í Borgarnesi. Ég á allt eins von á að illa gangi að manna Ólafsvík, sem ég vona þó í hjarta mínu að ekki verði raunin, á þó fullt eins von á að svo verði ef stjórnunarháttum heilsugæslu Ólafsvíkur verði ekki breytt.

Eins get ég ekki orða bundist, nú á tímum gegnsærrar stjórnsýslu, að hvorki þú né mannauðsstjóri hafi haft bein samskipti við undirritaðan vegna þessa máls!

Ber þetta merki góðrar/réttlátrar stjórnsýslu?

Skyldi núverandi og væntanlegir framtíðar ráðherrar heilbrigðismála lesa þetta bréf þá leyfi ég mér að segja; „Ekki ráða heilbrigðismenntaða manneskju til starfa sem forstjóra heilbrigðisstofnana/sjúkrahúsa, því þeir kunna að hafa tilhneigingu til að skora „keilur“ með umbun einstaklings úr eigin starfsstétt á kostnað annarrar.

Hvað ætlar þú að gera til að bæta ásýnd HG HVE og þjónustu hennar við íbúa Vesturlands?

Hvernig hyggst þú manna stöður  heilsugæslulækna, sem þú rekur svo hægri/vinstri, vegna óánægju starfsfólks heilsugæslu ef því tekst ekki að setja á læknana hálsgjörð og fá að teyma, að eigin vild, eins og rakka?

Aðkoma þín að þessu máli finnst mér bera merki grunnhyggni þar sem aðeins önnur hlið þessa máls er skoðuð, hvers vegna beitir þú þessum vinnubrögðum? Er það hugsanlega ekki ómaksins vert að eyða orðum á mig?

Vænti svara á þessum vettvangi!

Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka öllum samstarfskonum/mönnum á HG Akraness og Sjúkrahúsi HVE fyrir frábæra viðkynningu og ánægjulegt samstarf.

 

Með vinsemd,

Þorsteinn Jóhannesson Dr.med. skurðlæknir