Meira um sameiningarmál

Veronika G Sigurvinsdóttir.

Ég er og hef alltaf verið mikill Snæfellingur og hef aðeins lagt við hlustir í sambandi við sameiningu sveitarfélaga hér á Nesinu. Það brennur á mér að allt sem snýr að sameiningu verði vel ígrundað og vandað til verka. Til að það heppnist tel ég alltaf að samtal og samráð við íbúa sé mjög mikilvægt, dæmin hafa sýnt það.

Það sem er framundan hjá okkur 19. febrúar er kosning um hvort okkur hugnist sameining við nágranna okkar í Snæfellsbæ. Skoðun mín hefur lengi verið að Snæfellsnesið eigi að verða eitt sameinað sveitarfélag. Ég held að við eigum ekki að bíða með það lengur. Nú er tími smásameininga liðinn og kominn tími til að við þorum að stíga stóra skrefið. Ef við hins vegar þurfum að taka sameininguna í minni skrefum held ég að farsælast sé að sameinast þangað sem þjónustan er sótt.

Aðeins um skólamálin sem hafa eðlilega verið mikið rædd. Hvað er það sem segir að ef Snæfellsnesið sameinast í eitt stórt flott sveitarfélag að það verði ekki hægt að halda úti einum skóla á sunnanverðu nesinu? Ég þekki ágætlega til í Borgarbyggð og veit að þar hafa ungmenni val. Ungmenni fara í Borgarnes í skóla ofan úr héraði eða vestan af Mýrum á meðan börnum sem búa í Borgarnesi hentar betur smærra skólasamfélag og hafa því val um að fara í minni skóla. Þetta þarf allt að ræða ef til kemur en mér finnst ekki hægt að stilla hlutum þannig upp núna að það sé annað hvort eða.

Í dag eru ansi mörg börn keyrð á einkabílum í Stykkishólm í skóla og tómstundir. Fólk hefur þurft að flytja lögheimili sín þangað til að standa straum af kostnaði við skólagjöldin. Ég get ekki séð að sameining í Snæfellsbæ leysi vanda þessa hóps. Metnaðarfullur framhaldsskóli er í Grundarfirði og það er gott sjúkrahús í Stykkishólmi þar sem íbúar sækja læknisþjónustu auk þess sem bændur geta fengið þjónustu tengda landbúnaði. Póstþjónustan kemur frá Stykkishólmi. Hvaða þjónustu sækja Eyja- og Miklhreppingar í Snæfellsbæ?

Ég sé fyrir mér eitt sameinað sveitarfélag – Snæfellsnes, ef vandað er til verka náum við heilmikilli hagræðingu í rekstri – eitt stórt myndarlegt sveitarfélag með sameinaðri – ansi víðri sveit, nokkrir þéttbýliskjarnar, hver með sína sérstöðu, eitt atvinnusvæði og sameinað íþrótta- og æskulýðsstarf svo eitthvað sé nefnt.  Ég sé til að mynda fyrir mér aukna samvinnu okkar sem búum hér á sunnanverðu Nesinu, hún verður ekki minni þó farið verði í stærri sameiningu.

Í sveitarfélagi eins og Eyja- og Miklaholtshreppi tel ég að sameining og stækkun sé mjög nauðsynleg, aðhald í stjórnsýslu og miklir möguleikar á að gera góða sveit enn betri.

Góðar stundir og í öllum guðsbænum fylgið hjartanu og kjósið.

 

Veronika G. Sigurvinsdóttir

Höf. er íbúi í Eyja- og Miklaholtshreppi.