Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri – mikilvægur hornsteinn

Halla Signý Kristjánsdóttir

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu á breiðum grunni því við verðum að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Það höfum við fundið í þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin misseri í heimsfaraldri og nú stríði í Evrópu. Þá er það mikilvægt að styrkja íslenska matvælaframleiðslu vegna matvælaheilbrigðis og síðast en ekki síst til að minnka kolefnisspor.

Matvælaöryggið er mikilvægt en einnig hafa loftslagsmál aldrei verið mikilvægari og þar kemur landbúnaðurinn sterkur inn. Þeir sem yrkja landið vita að loftslagsmál eru forsenda þess að líf dafni. Styrkja þarf betur við skógrækt, landgræðslu og fjölbreyttra ræktun til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftlagsmálum. Það skiptir máli að allt landið sé í byggð og bændur eru vörslumenn þeirrar auðlindar sem við eigum allt undir. Með styrkum stuðningi við landbúnað eflum við þróun mannlífs og byggð í landi öllu.

Menntun er máttur

Landbúnaðarskólinn á Hvanneyri á sér langa sögu eða allt frá 1889, þar er dágóð reynsla og þekking sem hefur myndast í gegnum árin. Frá árinu 2005 hefur þar verið Landbúnaðarháskóli og fer þar nú fram öflugt rannsóknar- og menntastarf í þágu landbúnaðar á Íslandi. Mikilvægi menntunar og rannsókna á þeim sviðum sem stunduð er á Hvanneyri hefur líklega sjaldan verið mikilvægari, þegar horft er til þeirra þátta sem ég nefndi í innganginum. Sérstaða skólans eru viðfangsefni hans en það eru náttúra landsins, nýting, viðhald og verndun, eins og segir á heimasíðu skólans. Þá er ánægjulegt að fyrirhugað er að stækka jarðræktarmiðstöðina í Hvanneyri, þar eru gerðar mikilvægar tilraunir og rannsóknir sem spila stórt hlutverk inn í framtíðina. Það má svo sannarlega segja að mikil gróska sé á Hvanneyri.

Gildi og markmið

Þegar rennt er yfir gildi og markmið skólans má sjá að horft er til framtíðar og þeirra aðstæðna sem eru og vænta má hér á norðlægum slóðum í samstarfi við alþjóðlegar rannsóknir og stefnur. Það er í samræmi við núverandi stefnumál stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á að byggja upp innlenda þekkingu á sviði sem nýtist okkur í þeim hagsmunamálum þjóðarinnar. Þá er talað um mikilvægi menntunar í landbúnaði sem stuðlar að fræðslu, ráðgjöf, þróun og nýsköpun. Þá er gott að horfa til framtíðarmarkmiða Landbúnaðarháskólans sem er að skólinn stuðli að aukinni verðmætasköpun og fæðuöryggi til framtíðar með sjálfbærri nýtingu auðlinda. Málefni dagsins eru nefnilega loftslagsmál og matvælaöryggi.

Við eigum góða skóla

Aðalsmerki Vesturlands eru tveir öflugir háskólar í Borgarfirði. Það er hlutverk bæði heimamanna og stjórnvalda að halda mikilvægi skólanna á lofti. Rúmlega 130 ára saga skólans á Hvanneyri er okkur kraftur til að halda áfram að styrkja öflugt starf á sviði menntunar og rannsóknar á landsbyggðinni.

 

Halla Signý Kristjánsdóttir.

Höf. er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.