Kyrrlát bylting í skólum

Steinunn Eva Þórðardóttir

Það er mín skoðun að hljóðlát bylting í skólamálum sé framundan og reyndar víða hafin. Mjög margir sem tjá sig um skólamál, bæði kennarar, nemendur og foreldrar, virðast vera óánægð með núverandi stöðu kerfisins og vilja breytingar. Nemendum virðist annað hvort leiðast eða stressa sig úr hófi.  Hvað er það þá sem við viljum og þurfum að sjá í skólunum? Draumaskólinn væri þannig að hann gæfi öllum sem hann stunda bæði nemendum og starfsfólki tök á að blómstra, sem sagt ganga vel og líða vel. Þá næst besti árangur. Í þannig skóla fyndist öllum hann tilheyra, vera partur af skólasamfélaginu, að hún væri metin að verðleikum, hefði rödd sem hlustað væri á og að starfið hefði tilgang. Mistök væru til að læra af þeim, árangri fagnað og allir væru með verkefni sem þeir ráða við á hverjum degi, sem kemur í veg fyrir lært hjálparleysi og skapar trú á eigin getu. Sköpun og leik væri fagnað, því það ekki bara má vera gaman í skólanum eða vinnunni, það er bara miklu ákjósanlegra, bætir bæði árangur og líðan.

Það sem er víða byrjað og markar að mínu mati upphaf þessarar bókstaflega hljóðlátu byltingar er innleiðing núvitundar. Margir skólar hafa tekið hugleiðslustundir inn í hefðbundið skólastarf, ýmist allur skólinn á sama tíma eða í ákveðnum greinum. Vendinám, afnám lokaprófa og óhefðbundnir skólar eins og Nú og Lýðháskólinn í Flatey eru önnur dæmi um þróunina sem er í gangi. Til að breyta skóla í átt til blómstrunar verða kennarar og starfsmenn skólans að ganga á undan. Klisjan með að setja súrefnisgrímuna fyrst á sig áður en þú hjálpar öðrum á hér vel við. Það gerir þú sem uppalandi með því að að stunda núvitund, nýta styrkleikanálgun og beita virkri hlustun. Núvitund gefur öllum smá kyrrð, það er dýrmætt að ná að hægja aðeins á okkur. Fólk nær að stjórna sér betur, kennari lengir aðeins í þræðinum hjá sér, nemandi róast og verður opnari fyrir lærdómnum. Það að nota styrkleika passar inn í flestar greinar, í bókmenntum má greina sögupersónur, þjálfarinn getur haft orð á því að iðkandinn sé góður liðsmaður, eða stærðfræðikennarinn hælt þrautseigju nemanda. Það er einmitt mjög þarft að efla þrautseigju hún er svo mikilvæg í námi og í lífinu yfirhöfuð. Styrkleikanálgunin, það að vera vakandi fyrir mannkostum sínum og annarra, bætir líðan, sjálfstraust, árangur og gerir samskipti betri. Kennari fær ef til vill meiri von fyrir hönd nemandans og nemandinn sér ekki bara hve glataður kennarinn er. Þegar nemendur hafa þjálfast í að greina styrkleika hver hjá öðrum fylgir aukinn skilningur á því hvað við erum ólík en samt öll svo ágæt, sem gæti snarminnkað einelti og einmanaleika. Nemendur þurfa að upplifa tilgang með náminu. Þemaverkefni, eins og að setja á svið leiksýningu eða gefa út blað eru kjörin. Þá er tilgangurinn augljós en í leiðinni læra þau ótal hluti á eðlilegan og sjálfvirkan hátt. Án þess að láta sér leiðast, en leiði er raunverulegt vandamál í skólum, gerir nám ólíklegra og ýtir undir slæmt geðheilbrigði.

Sumir virðast fastir í því að ef það sé gaman þá geti ekki alvöru nám að átt sér stað. Eins á vordögum í skólum þegar nemendur fá að vera meira úti og skoða sitt nánasta umhverfi og náttúru. En hvað er ekki lærdómsríkt við það? Leikur er í alvörunni besta leiðin til að læra, líka fyrir okkur þessi eldri. Muniði ekki:  „Það er leikur að læra, …læra meira og meira, meira í dag en í gær.“

Steinunn Eva Þórðardóttir

Tími í núvitund í skóla á Reykjanesi. Ljósm. Víkurfréttir á Suðurnesjum.

Fleiri aðsendar greinar