Höfum trú á Borgarbyggð

Ragnhildur Eva Jónsdóttir

Borgarbyggð er öflugt samfélag og er sérstaða þess meðal annars sú að hér geta allir fundið búsetukosti við sitt hæfi, hvort sem það er í dreifbýli, þéttbýli eða þéttbýliskjörnum dreifbýlisins. Ég valdi að búa í dreifbýlinu á sveitabæ, þar sem við hjónin rekum sauðfjárbú. Við höfum valið að ala upp börnin okkar hér, þar sem ég tel það forréttindi að fá að alast upp í sveit og búa í sveit. Landbúnaður er einn af hornsteinum byggðar í Borgarbyggð, því er mikilvægt að tryggja rekstrarskilyrði í landbúnaði og gæta hagsmuna bænda í hvítvetna í því samhengi.

Uppbygging innviða

Við í Sjálfstæðisflokknum munum halda áfram að leita allra leiða til að flýta uppbyggingu á mikilvægum innviðum eins og varðandi fjarskipti, ljósleiðara, þrífösun rafmagns og uppbyggingu vega. Við ætlum áfram að leggja mikla áherslu á að dreifbýli Borgarbyggðar fái aðgang að þriggja fasa rafmagni, þar sem skortur á þrífösun er farinn að standa atvinnuuppbyggingu í dreifbýlinu fyrir þrifum. Því til viðbótar er mikilvægt að við tryggjum afhendingaröryggi rafmagns í dreifbýlinu. Ég trúi því að með bættum búsetuskilyrðum í dreifbýlinu muni ekki einungis landbúnaðurinn blómstra heldur einnig önnur atvinna. Með þrífösun rafmagns opnast auknir möguleikar í iðnaði og með bættum internettengingum er hvatt til atvinnufjölbreytni, þar sem færi gefst á að vinna hin fjölbreyttustu störf í gegnum tölvuna eina. Með styrkingu innviða stuðlum við að blómlegra atvinnulífi og uppbyggingu í dreifbýlinu.

Vöndum til verka – trúum á byggðarkjarna dreifbýlisins

Sveitarfélagið er fyrst og fremst þjónustustofnun sem hefur það hlutverk að þjónusta alla íbúa sveitarfélagsins, hvort sem þeir velja sér búsetu í dreif- eða þéttbýli. Þegar við lítum til okkar víðfeðma sveitarfélags þurfum við að hugsa okkur vel um áður en stórar ákvarðanir eru teknar og taka þær fyrst og fremst á faglegum en líka samfélagslegum og fjárhagslegum forsendum. Við sem sveitarfélag og samfélag ættum að líta til framtíðar, en ljóst er að töluverð fólksfjölgun er á ákveðnum svæðum í drefibýlinu. Við í Sjálfstæðisflokknum munum leggja metnað okkar í að halda leik- og grunnskólum sveitarfélagsins áfram í fremstu röð á landsvísu og leitast við að hafa þjónustuna þar sem hennar er þörf.

Krafa nútíma dreifbýlisins

Nútíma samfélag í dreifbýli gerir þá kröfu að leikskólar séu nálægt og að þeir sem vilji nýta þjónustuna hafi raunverulegan kost á því, hvort sem þeir starfa við landbúnað eða annað. Í því samhengi er mikilvægt að við trúum á byggðakjarna dreifbýlisins og þjónustum þá með velferð og hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Nú stendur yfir endurskoðun á faglegri skólastefnu sveitarfélagsins og samhliða þeirri vinnu hafa verið skoðaðar leiðir varðandi framtíðarskipan skólamála í dreifbýlinu. Sú vinna er mikilvægt leiðarljós inn í vinnu komandi mánaða og ára. Af þeim hugmyndum sem hafa komið upp í framangreindri vinnu hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áhuga á því að láta skoða ávinninginn af því að færa leikskólann Hraunborg frá Bifröst að Varmalandi og nýta þannig samlegð með þessum tveimur skólastigum til að styrkja skólasvæðið þarna megin í Borgarfirðinum. Með þessum hætti væru líkur á því að fleiri á upptökusvæði Varmalandsskóla myndu nota leikskólann Hraunborg og þannig myndi skapast meira svigrúm á leikskólum í Borgarnesi, þar sem hluti barna af svæðinu sækja leikskóla þar. Einnig munum við áfram brúa bilið milli leikskóla og vinnumarkaðar með inntöku 12 mánaða barna, þar sem það er mögulegt og halda leikskólagjöldum samkeppnishæfum við önnur sveitarfélög.

Fjölgun íbúa sveitarfélagsins

Auk þess að búast við fjölgun íbúa í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins, þá þurfum við að vera tilbúin að taka við fjölgun íbúa í dreifbýlinu líka. Nú þegar er m.a. verið að byggja töluvert í Húsafelli og skipulagsvinna við fjölgun lóða við Reykholt hafin. Þegar litið er inn Norðurárdalinn, upp Hvítársíðuna, vestur í Kolbeinsstaðahrepp eða inn Lundarreykjadalinn, þá eru möguleikar á að þar setjist að íbúar. Ýmist eru það uppkomin börn að sækja heim aftur eða nýtt fólk sem telur það eftirsóknarvert að búa í Borgarbyggð. Til að koma til móts við fjölgun íbúa munum við beita okkur fyrir því að auka framboð íbúðarhúsalóða til úthlutunar, bæði í þéttbýli og dreifbýli, til að taka á móti þeim sem vilja búa í okkar víðfeðma sveitarfélagi. Bjóðum fólk velkomið til okkar þar sem hugað er vel að þjónustu í þéttbýli sem og dreifbýli.

Verum bjartsýn – tilbúin og hugsum stórt.

 

Ragnhildur Eva Jónsdóttir, sauðfjárbóndi og lögfræðingur

Höf. skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð.