Gestastofur rísa í þjóðgörðum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Uppbygging gestastofa þjóðgarðanna okkar hefur fengið stóraukinn kraft á þessu kjörtímabili. Á Hellissandi, Kirkjubæjarklaustri og í Mývatnssveit hillir nú undir glæsilegar gestastofur þar sem tekið verður á móti ferðamönnum, skólahópum og heimafólki til að fræðast um þjóðgarðana, náttúru þeirra, sögu svæðanna og menningarminjar.

Ég hef lagt ríka áherslu á að styrkja stoðir náttúruverndar hérlendis. Fjármagn til landvörslu hefur verið aukið um hálfan milljarð árlega og um milljarður fer nú í uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum á hverju ári. Þessi forgangsröðun styður við vernd náttúru og menningarsögulegra minja þannig að komandi kynslóðir geti einnig notið þeirra. En þetta skilar líka efnahagslegum ávinningi í nágrenni svæðanna með fleiri heilsársstörfum við þjóðgarða og önnur friðlýst svæði og aukinni sumarlandvörslu. Verktakar heima í héraði fá oft verkefni við uppbyggingu innviða á borð við gestastofur, göngustíga, salernishús, bílastæði og fleira.

Eftir því sem seglum í ferðaþjónustu fjölgar á tilteknu svæði skapast frekari tækifæri í afþreyingarferðaþjónustu og veitinga- og gistiþjónustu. Friðlýstu svæðin okkar, ekki síst þjóðgarðarnir, eru einir mikilvægustu seglarnir fyrir ferðaþjónustuna.

Ný gestastofa á Hellissandi

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 og verður tuttugu ára í júní á þessu ári. Margir þingmenn og ráðherrar á undan mér í starfi hafa lagt hönd á plóg við að afla nýrri gestastofu á Hellissandi nægjanlegt fé til að framkvæmdir gætu hafist. Fjármögnuninni lauk árið 2018 og nú standa framkvæmdir yfir og stefnt er að því að ljúka þeim á næsta ári. Með tilkomu gestastofunnar verður þjónusta þjóðgarðsins við ferðamenn stóraukin, enn frekari tækifæri skapast til fræðslu um náttúrufar og sögu svæðisins og tengslin þar á milli. Ráðist hefur verið í fjölda annarra verkefna í þjóðgarðinum nýlega, til dæmis nýjan stíg niður á Djúpalónssand, útsýnispall við Svalþúfu og bílastæði við gestastofu þjóðgarðsins á Malarrifi. Frá árinu 2018 og næstu ár er gert ráð fyrir hátt í 300 milljónum króna í framkvæmdir í þjóðgarðinum sem ólíklegt er að ráðist hefði verið í nema vegna tilkomu hans. Nú er unnið að stækkun þjóðgarðsins og það væri vel við hæfi að staðfesta hana á tuttugu ára afmælinu í sumar.

Ný gestastofa á Kirkjubæjarklaustri

Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð skal þjóðgarðurinn koma upp sex meginstarfsstöðvum. Á þeim eru reknar gestastofur. Árið 2019 lauk fjármögnun ríkisins á gestastofu á Kirkjubæjarklaustri og skóflustunga var tekin að henni á 12 ára afmæli þjóðgarðsins í júní 2020. Magnús Þorfinnsson bóndi í Hæðargarði gaf af rausnarskap sínum land undir gestastofuna. Fjölgað hefur um einn heilsársstarfsmann í Vatnajökulsþjóðgarði á Kirkjubæjarklaustri sem hluti af aukinni áherslu minni á landvörslu. Stefnt er að opnun gestastofunnar á næsta ári og ljóst að hún mun verða mikil lyftistöng fyrir Skaftárhrepp.

Ný gestastofa í Mývatnssveit

Í byrjun janúar gekk ríkið frá kaupum á húsnæði gamla Skútustaðaskólans í Mývatnssveit fyrir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs. Húsnæðið mun jafnframt nýtast sem gestastofa fyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár og hýsa starfsemi fjögurra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem hafa starfsaðstöðu í Skútustaðahreppi. Jafnframt opnast möguleikar á að aðrar stofnanir og fyrirtæki geti fengið aðstöðu fyrir störf án staðsetningar. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur mikinn áhuga á að koma upp þekkingar- og nýsköpunarsetri í húsnæðinu og ég deili þeim áhuga. Ég sé mikil tækifæri í að búa til aðstæður fyrir samvinnu og suðupott hugmynda á þessum fallega stað í Mývatnssveit. Næstu skref eru að ráðast í lagfæringar á húsnæðinu og skipuleggja nýtingu þess í samvinnu við Skútustaðahrepp og stofnanir hins opinbera.

Fjármagn í gestastofur tryggt í fjármálaáætlun

Því er ekki að neita að það hefur tekið of langan tíma að klára fjármögnun gestastofa við þjóðgarða hérlendis. Ég hef þess vegna markað þá stefnu að frá og með árinu 2023 verði sérstöku fjármagni varið til stórra innviðaverkefna á borð við gestastofur og hefur verið gert ráð fyrir að 440 milljónum króna verði varið í slík verkefni árlega samkvæmt fjármálaáætlun. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp mitt um Hálendisþjóðgarð en verði það að lögum kallar það á uppbyggingu innviða, meðal annars gestastofa á láglendi, víða um land. Einnig er í undirbúningi stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum sem mun kalla á uppbyggingu.

Náttúruvernd er framsýn byggðastefna

Ég tel mikilvægt að hugur fylgi máli. Þessi ríkisstjórn hefur komið því þannig fyrir í fjármálaáætlun að hægt sé að fylgja eftir brýnni innviðafjárfestingu með gestastofum og tryggt með því nauðsynlegan fyrirsjáanleika svo hægt sé að ráðast í framkvæmdir á skemmri tíma en áður hefur verið. Í þessu samhengi er vert að minna á að samkvæmt rannsóknum í Finnlandi, Bandaríkjunum og hér á Íslandi skilar fjárfesting hins opinbera á náttúruverndarsvæðum sér í efnahagslegum ávinningi fyrir þjóðarbúið og heima í héraði. Þetta eru því mjög góðar fjárfestingar til framtíðar, enda felst framsýn byggðastefna í vernd náttúrunnar.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Höf. er umhverfis- og auðlindaráðherra.

Fleiri aðsendar greinar