Gefum sjávarbyggðunum næringu í æð!

Inga Sæland

Það er kunnara en frá þurfi að segja að kvótakerfið leiðir til samþjöppunar aflaheimilda og þar með atvinnuleysis og fátæktar í þeim byggðarlögum sem missa aflaheimildir. Íbúar þorpanna, sem ávallt gátu treyst á náttúruauðlindina, eiga nú búsetu sína og barna sinna undir dyntum eins eða tveggja kvótagreifa. Þessir valdamiklu menn geta ráðstafað öllum veiðiheimildum  úr þorpinu og skilið íbúa þess eftir bjargarlausa, þó nægur fiskur sé við mynni fjarðarins, þar sem þorpið stendur.

Staðsetning sjávarþorpanna

Sjávarþorpin eru þar sem þau eru vegna nálægðar sinnar við staðbundin fiskimið. Vissulega óx togaraflotinn hratt upp úr miðjum áttunda áratugnum þegar Íslendingar voru í þann veginn að losa sig við mörg hundruð erlenda togara af Íslandsmiðum. Hugsanlega mátti fækka þeim eitthvað en sá blóðugi niðurskurður aflaheimilda, sem nú á sér stað í sjávarþorpunum, er kominn fram yfir sársaukamörk og á ekkert skylt við hagræðingu. Kröpp staða íbúa fyrrum sjávarbyggða hefur greitt götu norskra lukkuriddara, sem þurft hafa að sæta miklum takmörkunum í Noregi en sjá hér í hillingum Villta-vestrið í laxeldi. Fyrir tilstuðlan stjórnvalda eiga íbúar þorpanna fárra kosta völ.

Hvað vill Flokkur fólksins gera?

Flokkur fólksins vill tafarlaust gera handfæraveiðar frjálsar og auka línuveiðar, sérstaklega í þeim þorpum sem misst hafa aflaheimildir. Útilokað er að ógna fiskistofnum með krókaveiðum. Krókafiskur er alla jafna besti fiskurinn. Þessar aðgerðir eru ekki nægar einar og sér en myndu þó strax hleypa nýju lífi í sjávarþorpin.

Við viljum nýja nýtingarstefnu fiskimiðanna þar sem sjávarauðlindin okkar er sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra útvalinna sægreifa eins og nú háttar til.

 

Inga Sæland

Höf. er alþingismaður og formaður Flokks fólksins