Ferðaþjónusta til framtíðar

Guðmundur Freyr Kristbergsson

Í Borgarbyggð eru ótal ferðaþjónustuaðilar. Fjölbreytni er með mesta móti, afþreying allt frá sýningum og söfnum upp í magnaðar náttúruferðir, gisting allt frá tjaldsvæðum upp í glæsileg hótel og veitingasala frá pylsum upp í steikur úr gæðahráefni úr héraði. Fyrir stuttu hlaut Vesturland titilinn „einn áhugaverðasti staður heims“ og það ekki að ástæðulausu. Eigendur og rekstaraðilar í ferðaþjónustu eiga heiðurinn. Með metnaði, hugmyndaaugði og þori hefur ferðaþjónustuaðilum tekist að gera Borgarbyggð að enn meira aðlaðandi svæði.

Matarauður Vesturlands og Uppbyggingarsjóður Vesturlands eru verkefni og sjóður sem hafa stuðlað að öflugri uppbyggingu í atvinnulífinu, þ.m.t. ferðaþjónustu og menningarlífi, og það ber að þakka. Svona verkefni hafa skilað okkur langt. Markaðsstofa Vesturlands hefur líka átt stóran þátt í kynningu á Vesturlandi.

Þegar horft er til framtíðar viljum við taka vel á móti öllum sem vilja sækja Borgarbyggð heim. Við erum stolt af öllu því sem við höfum upp á að bjóða. Ferðaþjónustan er okkur mikilvæg og við viljum hafa hana áfram í sátt við allt og alla. Ferðaþjónustan er í sókn og þurfum við öll að halda vel á spöðunum svo okkar svæði verði áfram einn áhugaverðasti staður heims.

 

Guðmundur Freyr Kristbergsson, Háafelli.

Höf. skipar 3. sæti á lista VG í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar