„Er eitthvað að frétta Jóhannes?“

Jóhannes Finnur Halldórsson

Oft er maður spurður. Sem betur fer hafa verið miklar umræður og skoðanaskipti um aðstöðu fyrir félagsstarf og afþreyingu þriðju kynslóðarinnar á Akranesi og nágrenni.  Það er mín skoðun að það væri mikið framfaraskref  að eiga samstarf við Golfklúbbinn Leyni um uppbyggingu og rekstur frístundahúss. Það væri skaði og tjón fyrir alla afþreyingu og félagslíf 60+ hér á svæðinu, ef því samstarfi væri hafnað. FEBAN væri þar með að taka forystu og starfa í anda þess sem lög félagsins gera ráð fyrir. Slíkt samstarf væri einstakt á landsvísu og öðrum til eftirbreytni. Það hefur ekkert að gera með skyldur sveitarfélaga varðandi lögbundna þjónustu við aldraða og öryrkja og þjónustumiðstöð eins og talað er um í lögum um málefni aldraða.

Stjórn FEBAN hefur fjallað um þessi mál, nánast á öllum fundum sínum í vetur og þann 2. mars sl. voru gerðar eftirfarandi samþykktir:

„Stjórn FEBAN er í forsvari fyrir tæplega 700 manna félag, þ.e. tæplega 10% af íbúum Akraness og nágrennis og er fjölmennasta félagið hér um slóðir. Við erum þó þess meðvituð að þátttaka félaga í félagsstarfi mætti vera meiri, en það getur verið spurning um, hvort kemur á undan áhuginn eða aðstaðan til að viðhafa félagslega virkni.“

Stjórn FEBAN vill af gefnum tilefnum, minna á að þann 26. mars 2014 var undirritaður samningur um kaup á húsnæði að Dalbraut 6, en í bókum bæjarins þar um kemur fram að: „Húsnæðið er hugsað sem þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara sem bæði getur rúmað félagsstarf og viðburði af ýmsu tagi fyrir þennan ört stækkandi hóp auk þess sem starf með eldri borgurum  á vegum Akraneskaupstaðar verður þar til húsa.“

Þeirri ákvörðum bæjarstjórnar um þjónustumiðstöð hefur ekki verið hnekkt. Það er tilhlökkun í okkar huga að sjá þá framkvæmd raungerast. Búumst við því fyrr en seinna.

Lengi hafa verið umræður og viðræður um betri aðstöðu sem sæmdi bæjarfélagi af stærðargráðu sem Akraneskaupstaður er og hjá sveitarfélögunum báðum á starfssvæði félagsins, í þeim efnum sem þau sannarlega eru og sem við íbúarnir megum vera stolt af.

Félaginu barst bréf frá Golfklúbbnum Leyni þann 11. janúar 2017 um félagsaðstöðu.  Í nefndu bréfi golfklúbbsins kemur m.a. fram að; „GL hefur átt í viðræðum við Akraneskaupstað um samstarf og stuðning um verkefnið og miðar þeim viðræðum ágætlega áfram og er stefnt að því að framkvæmdir hefjist á þessu ári og húsnæðið verði tekið í notkun á vormánuðum ársins 2018 að öllu óbreyttu. Stjórn GL vill bjóða stjórn FEBAN til viðræðna um aðkomu að verkefninu og mögulegt samstarf um rekstur húsnæðisins sem fyrirhugað er að byggja á skilgreindum byggingarreit þar sem núverandi golfskáli er staðsettur.“

Stjórnin fagnar uppbyggingarvilja golfklúbbsins og telur þær framkvæmdir horfa til mikilla bóta fyrir hag samfélagsins og allt frístundastarf á Akranesi og ekki síst fyrir eldri borgara, þar sem að gert er ráð fyrir stækkun hússins frá fyrri hugmyndum. Þar er átt við 200 m2 stækkun frá upphaflegum teikningum, eingöngu vegna hugsanlegs samstarfs við FEBAN. Stjórn félagsins vill hvetja til fyrirhugaðrar uppbyggingar og lýsir vilja sínum til að gera samkomulag um nýtingu hússins.

Að byggja upp annars vegar þjónustumiðstöð fyrir aldraða og öryrkja og hins vegar klúbbhús golfklúbbsins, sem nýtist sem frístundahús fyrir íbúa bæjarins og ekki síst eldri virðulega borgara, er alls ekki ósamrýmanlegt.

Þegar um að ræða ört stækkandi hóp, hinnar svokölluðu þriðju kynslóðar, þarf að tryggja að sá hópur viðhafi virkni og félagsskap. Við sem samfélag, höfum efni á að bjóða þessum aldurshópi upp á hið allra besta. Hann hefur að hluta, ásamt gengnum kynslóðum, skapað núverandi auð.

Við hvetjum alla til að horfa til lengri framtíðar og standa saman að uppbyggingu samfélagsins, jákvæð, bjartsýn og bær til að njóta lífsins. „FEBAN ER FRAMTÍÐIN.“.“

Og þá var einnig gerð eftirfarandi samþykkt um þjónustumiðstöð aldraðra og öryrkja.

„Stjórn FEBAN vill koma því á framfæri að fjöldi félagsmanna FEBAN hefur sett sig í samband við stjórnina og er mjög óánægður með framgöngu bæjaryfirvalda er varðar hátíðleg loforð um innréttingu á húsnæði Dalbraut 6 fyrir aldraða og öryrkja. Kynnt hefur verið nýtt skipulag, þar sem að gert er ráð fyrir að rífa skuli það hús, til að byggja nýja þjónustumiðstöð aldraðra og öryrkja í einhverri óljósri framtíð á þessum stað. Það geta eldri borgarar ekki sætt sig við og vilja að staðið verði við gefin fyrirheit og það sem fyrst.“

Þannig að það er alltaf eitthvað að frétta.

 

Jóhannes Finnur Halldórsson

Höf. er form. stjórnar FEBAN.

Fleiri aðsendar greinar