Endurskoðun sauðfjársamnings er að hefjast

Haraldur Benediktsson

Til grundvallar þeirri endurskoðun leggur Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tillögur Samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga.  Ríki og bændur að hafa skipað samninganefndir og er Unnur Brá Konráðsdóttir, fv. forseti Alþingis, formaður samninganefndar ríkisins.

Landbúnaðarráðherra hefur boðað til funda með bændum. Til að nýta tíma verða þeir haldnir næstu daga. Já, með skömmum fyrirvara. Þó er það skýrt af hálfu ráðherra að fleiri fundir en þeir sem nú hafa verið ákveðnir, verða haldnir. En vegna anna ráðherra er mikilvægt að nýta tímann sem best.

Það er mikilvægt að við náum beinu samtali við bændur um verkefnið, og heyra sjónamið þeirra. Það skal rækilega undirstrikað að samingaviðræður og niðurstaða þeirra verða hinar raunverulegu aðgerðir.

Tillögur Samráðshópsins eru afgerandi og geta leitt til talsverða breytinga. Ekki byltingar – heldur til þess fallnar að vinna sauðfjárbúskap úr þeirri kreppu sem hann hefur verið í.

Helstu atriði tillagna eru;

Samráðshópurinn leggur til að framleiðsla verði miðað við núverandi aðstæður um 8500 tonn. Til að ná því marki, eru eftirfarandi aðgerðir:

  • Sérstakt tilboð til bænda 67 ára og eldri að gera samninga um búskaparlok. Fyrirkomulagið stendur til boða til haustsins 2019 og þeir samningar gilda til og með 2023.
  • Frysting gæðastýringargreiðslna. Viðmiðunartímabil eru undangengin 3-5 ár.
  • Lækkun á ásetningshlutfalli úr 0,7 -í 0,5 vetrarfóðraðar kindur fyrir vert ærgildi.
  • Bændum bjóðist þátttala í þróunarverkefnum, tengt kolefnisbindingu.
  • Að stofnaður verði stöðugleikasjóður sem stjórntæki til að draga úr sveiflum á markaði.
  • Þá eru allmargar tillögur er snúa að afurðastöðvum í sauðfjárslátrun.

 

Þá er í framvinduskýrslu okkar fjallað um umfangsmiklar og róttækar breytingar sem til lengri tíma eru hugsaðar til að vinna að eflingu sauðfjárræktar.

Uppstokkun á stuðningsfyrirkomulagi – það er ærgildum og gæðastýringu.  Sem verði umbreytt í nýjan stuðning – sem nefndur hefur verið Búsetugrunnur.

Búsetugrunnur er grundvallaður á því sem í tillögum LS hefur verið kölluð frysting á gæðastýringargreiðslum. Að viðbættum greiðslum tengdum ærgildum.

Búsetugrunnur er því ekki að minnka eða flytja til þær fjárhæðir sem bú hafa fengið síðastliðin þrjú ár.  Fyrst og fremst er verið að samræma sem mest hagsmuni sauðfjárbænda- því átök innan greinarinnar undanfarið hafa sannarlega verið fyrir hendi.

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, leggur Samráðshópurinn til í framvinduskýrslu sinni, að við samningagerð við bændur verði útfærð leið til Aðlögunarsamninga á hverju búi.  Aðlögun er þá í þeirri merkingu að stuðningur geti skapar grunn að búháttabreytingum. Bændur byggi upp annan rekstur, sem skapar verðmæta og traustan grunn fyrir framtíðarafkomu.  Í þessu sambandi er í raun flest undir, svo sem búfjárrækt, jarðrækt, garðyrkja, skógrækt eða landgræðsla nú eða þjónusta.  Megin forsendan fyrir aðlögunarsamningi og búsetugrunni er búseta á jörð og verðmætaskapandi rekstur.

Þá leggur Samráðhópurinn til þá grundvallarbreytingu að stuðningur við sauðfjárrækt falli fyrst og fremst til framleiðslu á innanlandsmarkaði. Að á ári hverju verði það magn sem innanlandsmarkaður getur tekið við ákvarðað, eftir nánari útfærslu og framleiðsla umfram það verði fyrir erlendan markað.  Sem áfram verður sótt á og hann markvisst undirbyggður.

Þessi áhersla kallar á breytingar á löggjöf um starfsumhverfi afurðastöðva.  Samráðshópurinn leggur til talsverðar breytingar, þar sem starfsumhverfi þeirra hefur tekið stakkaskiptum við stóraukinn innflutning á kjöti og því ekki lengur hægt að segja að innlendi kjötmarkaðurinn sé lengur starfsvettvangur þeirra.  Til að leiða fram aukna verðmætasköpun, betri nýtingu verðmæta og meiri fagmennsku eru lagðar til breytingar er skapa heimildir til samstarfs um einstaka þætti.

Það er ljóst að talsverð uppstokkun í vinnslu, vöruþróun, slátrun, sölu aukaafurða og það magn sem framleitt er umfram innanlandsmarkað verður stórt verkefni fyrir þessi fyrirtæki.  Í dag er sem dæmi breytileiki í sláturkostnaði verulegur þar sem lægsti kostnaður er um 180 kr og hæsti um 340 kr pr kg.

Tækniþróun og sókn til meiri sjálfvirkni er takmarkaður við núverandi aðstæður og svo mætti lengir telja. Lauslega má greina í skýrslu KPMG að lækka megi kostnað um 300 – 500 milljónir árlega með skilvirkari fyrirtækjum.  Það er því mikil tækifæri fyrir bændur og neytendur í að efla þennan þátt matvælaiðnaðar á Íslandi.

Hér er aðeins stiklað á helstu þáttum. Samninganefnda bænda og ríkis bíður það stóra verkefni að skapa samning til næstu fimm ára – til næstu endurskoðunar 2023 – sem getur skapað sterka viðspyrnu fyrir burðaratvinnugrein sveitanna – sauðfjárrækt.

 

Haraldur Benediktsson