Det er dansk, det er dejligt!

Þorgerður Bjarnadóttir

Líkt og flest öll íslensk börn þá skildi ég ekki hvaða tilgangi það þjónaði að læra dönsku. Ég vissi að Ísland hafði verið undir stjórn Danakonungs í einhverja áratugi löngu áður en ég eða foreldrar mínir vorum svo mikið sem hugmyndir en samt fannst mér það engin afsökun fyrir þessu leiðindafagi sem þröngvað var upp  á mig.

Orðin þóttu mér bjöguð og illskiljanleg, beygingar alveg út í hött, framburðurinn út úr kortinu og stafsetningin með bókstöfum sem ég vissi ekki einu sinni að væru til. Samt böðlaðist ég allt frá 12 ára aldri við að lesa um dönsk börn í skólabókunum sem hétu yfirleitt Lars eða Mette og gengu í skólann með nestið sitt sem nánast undantekningarlaust innihélt rugbrød með leverpostej og mælk. Eins og Jón Gnarr hélt ég því streitulaust fram að aldrei nokkurn tíma myndi ég nota þessa takmörkuðu dönskukunnáttu sem öllum Íslendingum er tamin og því fannst mér tíma mínum sóað í grunnskóla.

Ekki batnaði ástandið þegar í menntaskóla kom. Danska var þar einnig ein af grunnþekkingunum sem allir áttu að ná tökum á. Lágmark tveir áfangar sem jafngiltu saman heilum skólavetri, en sú kvöl og pína hugsaði ég. Enn og aftur voru lesnar sögur um dönsk ungmenni sem nú voru aðeins eldri, drukku øl, borðuðu súkkulaðiköku og héldu upp á afmæli saman. Konungsfjölskyldan var einnig stór partur af kennslunni. Þar hétu reyndar flest allir íslenskum nöfnum, meira að segja drottningin og því skildi ég ekki hvers vegna við áttum að læra dönsku þegar Danirnir sjálfir hölluðust greinilega meira að íslensku. Mér er sérstaklega minnisstætt síðasta lokaprófið í síðasta dönskuáfanganum sem ég var skikkuð í sem var munnlegt. Ég átti að lesa einhverja sögu og segja til um innihald hennar til að fullvissa kennarann um þekkingu mína og skilning á þessu merka máli. Með herkjum tókst mér að telja kennslukonunni trú um að ég skildi hvert orð sem ég las og því náði ég áfanganum með prýði. Með kaldhæðnisstríðni í lok prófsins bauð kennslukonan mér að skrá mig í sérstakan valáfanga í dönsku næstu skólaönn. Það boð afþakkaði ég pent með þeim orðum að líklegra væri að ég lenti á tunglinu heldur en að ég færi sjálfviljug að læra meiri dönsku um ævina enda hefði mér alltaf þótt hún leiðinleg. Með þeim orðum taldi ég víst að ég væri sloppin frá dönskunni.

Næsta menntunarstig tók ég við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Mér til lítillar hrifningar voru nokkrar námsbækur þar á dönsku. Eftir að hafa ekki lesið mikið á dönsku í þau ár frá því að ég útskrifaðist úr menntaskóla kom það mér virkilega á óvart hversu mikið ég skildi í þessum bókum. Líklega hefur eitthvað setið eftir þótt að fegin hefði ég reynt að gleyma öllu sem ég hafði lesið um Lars og Mette með nestið sitt og Ole sem átti afmæli. Líklega var það mér til happs að kennararnir gáfust ekki upp á mér þrátt fyrir tuð og nöldur um að danska væri leiðinleg og tilgangslaus.

Nú er sögunni vikið til dagsins í dag þar sem ég sit 26 ára Borgnesingur á leið að flytja til Kaupmannahafnar (þar sem er töluð danska) til að læra dýralækningar (á dönsku) við Kaupmannahafnarháskóla núna í haust. Ekki hefði mig grunað það fyrir 14 árum síðan að ég ætti nokkurntíma eftir að flytja til Danmerkur til þess að læra eitthvað á dönsku, framkoma mín í garð dönskukennslu endurspeglaði það nokkuð vel. Ég finn mig því knúna til að biðja þá dönskukennara sem ég hef haft gegnum mína skólagöngu afsökunar.

Elín Kristjánsdóttir, Ingibjörg Grétarsdóttir og Agnes Hansen, takk fyrir að gefa ykkur tíma fyrir að kenna eitt vanþakkaðasta fag skólasögunnar, takk fyrir að hafa gefið ykkur tíma til að kenna mér dönsku og því jafnframt biðst ég afsökunar á trúleysi mínu um ágæti danska málsins og danskrar menningar.

Því er nú hverju orði sannara; Det er dansk, det er dejligt!

 

Virðingarfyllst,

Þorgerður Bjarnadóttir.

Höfundur er verðandi nemandi í dýralækningum við Kaupmannahafnarháskóla.

Fleiri aðsendar greinar