Börnin okkar

Aníta Eir Einarsdóttir

Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og þess vegna er velferð og heilbrigði þeirra okkur efst í huga. Þegar ég tala um okkur á ég við okkur foreldrana, okkur sem umönnunaraðila, leikskólakennara, dagforeldra, grunnskólakennara og okkur sem íbúa samfélagsins.

Samkvæmt 3.grein Barnasáttmálans þurfa allar ráðstafanir sem og ákvarðanir yfirvalda, hvað varðar börn, að vera byggðar á því hvað er þeim fyrir bestu. Í aðalnámskrá leikskóla er talað um að líðan barna í leikskóla sé samtvinnuð við velferð fjölskyldu þess og því er sjónarmið foreldra mikilvægur liður þegar kemur að velferð og vellíðan barnanna. Foreldrar og leikskólinn þurfa því að vinna saman til þess að tryggja lífsgæði barnanna og hafa umhyggju og velferð þeirra að leiðarljósi. Mikilvægt er að við vinnum saman sem heild, stöndum saman vörð um velferð barnanna okkar og tryggjum þannig vellíðan þeirra og byggjum upp betri framtíð.

Börn á Akranesi byrja flest á því að fara til dagforeldra eða eru í umönnun foreldra sinna þar til þau komast að á leikskóla. Við á Akranesi getum verið stolt af þeirri þjónustu sem er í boði, hér starfar fagfólk upp til hópa og starfsemin til fyrirmyndar. Þegar ég skoðaði aðalnámskrá leikskólanna kom fram að börn öðlist færni og menntun víðar en í skólakerfinu. Á sama tíma er það hlutverk sveitarfélagsins að bjóða upp á skólakerfi þar sem það er mikilvægur grundvöllur til þess að tryggja að öll börn fái almenna menntun. Börn þurfa ást og kærleika, þau þurfa að öðlast almenna menntun, þurfa að læra á lífið og fá verkfæri til þess að takast á við það sem koma skal. Hérna skiptir því líka máli að öll börn, á sama hvað aldri þau eru, hafi aðgang að skólakerfinu eða þá að sveitarfélagið bjóði upp á önnur úrræði á meðan þau bíða eftir að komast inn. Bærinn hefur staðið sig nokkuð vel en þó er margt sem má bæta. Í stefnuskrá okkar Framsóknar og frjálsra kemur fram að framkvæmdir við nýjan leikskóla á neðri Skaga ættu að hefjast á kjörtímabilinu, en samkvæmt fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar eiga framkvæmdir að hefjast árið 2024. Á sama tíma ættum við að stefna að því að opna ungbarnadeild sem væri frábært úrræði hvað varðar plássleysi vistunar fyrir yngstu börn samfélagsins og slík deild gæfi möguleika á inntöku allra barna við lok fæðingarorlofs. Seinustu ár hefur mismunur gjalda leikskóla og dagforeldra verið gríðarlegur og skiljanlega hefur það haft í för með sér óánægju foreldra. Viljum við í Framsókn og frjálsum jafna þessa greiðsluþátttöku og veit ég með vissu að það samtal er nú þegar hafið með dagforeldrum. Þar er hugmyndin að byggja upp meira og betra samstarf milli dagforeldranna og Akraneskaupstaðar ásamt því að auka niðurgreiðslu dagforeldra gjalda til þess að koma í veg fyrir slíka mismunun.

Það sem hefur verið mér hjartans mál í töluverðan tíma er sumarorlof leikskólabarna, tel ég að þar þurfi að auka sveigjanleika. Nú vinn ég á heilsugæslunni á Akranesi og þar eru úthlutað sumarfríi starfsmanna í svokallað „fyrra“ og „seinna“ frí líkt og hjá öðrum stofnunum og fyrirtækjum. Hvað varðar börnin og starfsmenn leikskólanna þá hafa þau ekki heldur val á sumarorlofi sínu, enda er leikskólinn lokaður á ákveðnum tíma og verða því bæði börn og starfsfólk leikskólans að fara í frí á þeim tíma. Leikskólinn er virkilega mikilvægur skóli fyrir börnin en á sama tíma þurfa börn hvíld og að njóta frísins með fjölskyldu sinni. En hver er hvíldin ef foreldrar fá ekki úthlutað fríi á sama tíma og börnin? Ekki verða samverustundirnar margar og ekki verður hvíldin mikil fyrir börnin ef þau þurfa að fara í pössun í margar vikur og jafnvel hoppa á milli staða þar sem úrræðin eru engin. Mikilvægt er að börnin fái tækifæri til að nýta þá færni og reynslu sem þau hafa öðlast á leikskólanum utan hans. Börnin þurfa einnig hvíld frá daglegu umhverfi sínu og læra að aðlagast á fleiri stöðum. Börnin eiga að njóta þess að vera með fjölskyldu sinni í fríum til þess að styrkja fjölskylduböndin.

Einnig má nefna að með því að hafa leikskólann opinn allan ársins hring veitir það ungu fólki tækifæri á að sækja um starf á leikskólum yfir sumartímann þar sem starfsemi er allt sumarið. Þá er mikilvægt að fagaðilar geti unnið með þeim og aðstoðað þau við að veita börnunum okkar góða umönnun og kennslu. Þetta gæti ýtt undir að fleiri fagmenn verða til og að fleiri einstaklingar sæki um menntun í leikskólafræðum. Það væri mikill fengur fyrir okkur Skagamenn.

Þetta er verkefni sem þarf að skoða í samvinnu, ígrunda þarf kosti og galla með fagaðilum leikskólanna, foreldrum og samfélaginu. Ég er tilbúin að leita leiða til að styrkja þjónustu til barnanna okkar, sem og starfsmanna leikskólanna með það að markmiði að allir fái að njóta sín með sínu fólki því það er jú það sem skiptir okkur mestu máli.

Setjum X við B og gerum góðan bæ enn betri bæ.

 

Aníta Eir Einarsdóttir.

Höf. skipar fimmta sæti á lista Framsóknar og frjálsra á Akranesi.