Börn og íþróttir

Sigrún Hanna Sigurðardóttir

Opið bréf til ungmennafélaga í Dalabyggð, Ungmennasambands Dala og Norður Breiðfirðinga og sveitarfélagsins Dalabyggðar

Íþróttir efla börn. Börn temja sér sjálfsaga og það eykur félags- og siðgæðisþroska þeirra að stunda íþróttir. Þau læra að taka tillit til annarra og vinna saman, sýna heiðarleika og samstöðu. En til þess að þetta virki allt þá þurfa þau að hafa gott bakland, stuðning foreldra, góða þjálfara og að metnaður sé lagður í íþróttastarfið. Ef þessir þættir virka þá eru meiri líkur á að árangur náist. Í gegnum íþróttir læra börn fljótt að takast á við sigur en líka tap. Þau læra að fara eftir settum reglum og ef reglur eru brotnar þá eru skýr viðurlög við brotinu. Börnin okkar hafa metnað og ef að sá metnaður snýr að íþróttum þá er það okkar hlutverk að efla þau. Suma dreymir stóra drauma, drauma um að ná langt í sinni íþrótt, svona draumar eru gott vegarnesti inn í framtíðina.

Hreyfing er öllum holl, börnum og fullorðnum. Börn sem alast upp við einhvers konar íþróttaiðkun eru mun líklegri til þess að velja sér heilbrigðan lífsstíl. Ekki má gleyma því að aðkoma foreldra að íþróttastarfinu er líka mikilvæg en það eflir tengsl og félagsskapur barna og foreldra er eins og allir vita mikilvægur fyrir alla aðila. Ekki má heldur gleyma að foreldrar eru helsta fyrirmynd barna sinna þannig að það er mikilvægt að foreldrar temji sér jákvætt viðhorf til hreyfingar og íþróttaiðkunar. Börn sem stunda reglulega íþróttir hafa mun sterkari sjálfsmynd en þau sem ekki æfa neinar íþróttir. Í nútíma samfélagi er margt sem er að berjast um athygli barna okkar. Kvíði, þunglyndi, offita er eitthvað sem er að hrjá börn nútímans. Íþróttaiðkun getur dregið úr líkunum á því að barn þurfi að berjast við þessa skugga, að komast í góðan félagsskap og það að reyna á huga og líkama getur gert gæfumuninn. Einnig hafa rannsóknir sýnt að íþróttaiðkun barna og unglinga getur minnkað líkurnar á að þau leiðist út í neyslu áfengis, tóbaks og annarra vímuefna.  Börn sem stunda íþróttir og hreyfa sig reglulega eru líka glaðari, þeim líður betur í skólanum, leggja sig meira fram í námi og fá að jafnaði hærri einkunnir.

Að þessu sögðu vil ég skora á íþróttafélögin í héraði, UDN og Dalabyggð að setja börnin okkar í fyrsta sæti og efla íþróttastarf á komandi vetri.  Svona starf þarfnast góðra skipulagningar svo vel takist til, ekki er nóg að byrja skipulagningu eftir að skóli hefst heldur áður og þá í samstarfi við skólann svo að tími barnanna nýtist sem best. Ég vil minna á að allt þetta fellur undir Velferðarstefnu Vesturlands, sem finna má á vef SSV. Nú er fyrirsjáanlegt að heimsfaraldurinn geti haft áhrif á starfsemi skóla sem og íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga þennan veturinn. Það er þó ekki afsökun til þess að leggja ekki upp með gott skipulag á því sem á að vera til staðar heldur á að leggja upp með það að öflugt starf geti verið þar til annað kemur í ljós.

Í svona víðfeðmu sveitarfélagi eins og okkar þarf gott samstarf milli allra aðila; heimila, skóla og þeirra sem sjá um skipulagningu á íþrótta- og tómstundastarfi barna og unglinga. Með góðu og öflugu samstarfi nýtist tími og fjármagn allra aðila best. Í svona fámennu sveitarfélagi eins og okkar er nauðsynlegt að koma að borðinu vitandi það að lausnir eru til við öllum vandamálum og að nauðsynlegt er að hugsa út fyrir rammann.  Lítum í kringum okkur því að við erum ekki eina fámenna sveitarfélagið sem vill gera það besta fyrir börnin.

 

Sigrún Hanna Sigurðardóttir.

Höf. er móðir og íbúi í Dalabyggð.