Borgarbyggð best fyrir heilsuna – fjárfestum inn í framtíðina

Guðveig Lind og Sigrún Sjöfn

Lífsmynstur fólks og lífsgæði snúa að auknum mæli að þeim þáttum sem lúta að reglulegri hreyfingu og heilsutengdum lífsstíl. Það er okkar viðfangsefni að skapa aðstæður og efla vitund í okkar samfélagi sem gera fólki auðvelt að stunda heilsueflandi lífsstíl. Forvarnir og lýðheilsa eiga ekki að falla undir skammtímaverkefni eða átök heldur vera í algjörum forgangi. Umræða um líðan barna og unglinga er sífellt að að verða meira áberandi, ásamt almennri vakningu í samfélaginu um áhrif sjúkdóma eins og þunglyndi og kvíða. Áhrif heimsfaraldurs Covid-19 á einstaklinga og samfélög hafa enn ekki komið fram að fullu og enn ríkir mikil óvissa um þau áhrif sem faraldurinn kann að hafa haft á samfélagið. Þá hafa samkomutakmarkanir haft ýmsar afleiðingar í för með sér þar sem að skóla- og frístundastarf hefur raskast mikið og staðreynd að vanlíðan barna og ungmenna hafa aukist.

Aðstaða til tómstunda- og íþróttaiðkunar í Borgarnesi

Það vita sennilega flestir sem stunda íþróttir í Borgarbyggð að aðstaða til íþróttaiðkunar í íþróttahúsinu er orðin allt of lítil og mikil þörf á endurbótum á húsnæðinu. Ekki eru aðeins færri og styttri æfingatímar í boði í íþróttahúsinu miðað við mörg önnur félög heldur kemur fyrir að ungmennum er boðið upp á æfingatíma seint á kvöldin þegar þau ættu í raun að vera að undirbúa sig fyrir svefn til að mæta úthvíld í skólann næsta dag. Þá þarf ekki að fara mörgum orðum um aðstöðuleysi til að auka fjölbreytileika íþrótta- og tómstundariðkunar en plássleysið gerir það að verkum að einungis er pláss fyrir fáar greinar. Í þessu plássleysi er hætta á að íþrótta- og afreksfólk flosni upp úr sínum greinum og annað hvort hættir eða færir sig um set, þangað sem aðstaðan er betri. Aðstöðuleysið og slakur aðbúnaður hefur einnig áhrif á þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir til framtíðar sem lítur að þátttöku í sjálfboðaliðastarfi. Íþrótta- og tómstundastarf sem hefur verið drifið áfram af þrautseigju og óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi einstaklinga í samfélaginu.  Sjálfboðaliðastarf sem oft á tíðum er ekki öllum sýnilegt og eflaust ekki margir sem hafa gert sér í hugarlund hver staðan væri ef ekki hefði verið fyrir það óeigingjarna starf sem fólk hefur unnið til að halda upp starfseminni frá upphafi iðkunar.

Aldraðir eiga alltaf það besta skilið

Á næstu áratugum mun öldruðum fjölga umfram aðra aldurshópa. Við þessu verðum við að vera undirbúin. Aldraðir verða að hafa kost á því að hátta lífi sínu eftir heilsu og getu á þeim stað sem þeir kjósa. Fólk þarf að geta búið sem lengst á sínum heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar, í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Stór hluti fólks á sjötugs- og áttræðisaldri er við góða heilsu og virkir lykilþátttakendur í samfélaginu. Nauðsynlegt er að áherslan varðandi málefni aldraðra snúi ekki aðeins að því að veita fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, þessum hópi verður að standa til boða viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengd þjónusta sem bætir lífsgæði.

Endurbætur og uppbygging

Nú liggur fyrir niðurstaða vinnuhóps sem skipaður var til að gera þarfagreiningu í tengslum við áform um endurbætur og uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Borgarnesi. Mikilvægt er að þessum áformum verði fylgt eftir af festu og samstöðu ásamt því að hugað verði að aðstöðu fyrir þá félagsstarfsemi sem nú hefur misst húsnæði sitt í Brákarey. Borgarbyggð hefur getað státað af öflugu íþróttafólki sem oft á tíðum er mikilvæg fyrirmynd barna og unglinga. Þá er forvarnargildi íþrótta og tómstunda margsannað ásamt því sem heilsueflandi samfélag og regluleg hreyfing getur dregið úr lífstílstengdum sjúkdómum sem ógna nútímasamfélagi. Góð aðstaða til íþrótta, hreyfingar og tómstunda er ekki aðeins mikilvægur þáttur í lífi bæjarbúa heldur er það einnig lykilþáttur í að laða að nýja íbúa. Mikilvægt er að þegar unnið að skipulagningu nýrra hverfa sem miða að því að fjölga íbúum að samhliða sé unnið að uppbyggingu nauðsynlegra innviða og því getur  verið dýrkeypt að fresta framkvæmdum á uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarnesi.

Ávinningurinn er allra

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að aðstaða fyrir alla aldurshópa til heilsueflingar og félagsstarfs sé eins góð og kostur er. Því teljum við brýnt að samstaða og meðvitund sé um mikilvægi þess að nýtt íþróttahús í Borgarnesi og aðstaða til útivistar, hreyfingar og tómstunda sé forgangsmál. Góð aðstaða fyrir alla aldurshópa mun skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Horfum til framtíðar og sínum framsækni, ávinningurinn verður skýr þegar fram líða stundir. Fjárfestum í heilsu og vellíðan.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir

Höfundar eru fulltrúar Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Fleiri aðsendar greinar