Blaut tuska framan í íslenskt atvinnulíf

Halldór Stefánsson

Fyrr á þessu ári fékk Bjarg íbúðafélag, sem er sjálfseignarstofnun stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og BSRB, úthlutað hjá Akraneskaupstað lóðum undir þrjú fjölbýlishús með alls 33 íbúðum við Asparskóga. Samkvæmt bókun bæjarráðs frá því í janúar á þessu ári leggur Akranesaupstaður um 92,8 m.kr til framkvæmdarinnar og er það gert í formi gatnagerðar- og þjónustugjalda, alls um 47,6 mkr og með beinu framlagi úr bæjarsjóði alls um 45,2 m.kr. Í staðinn fær Akraneskaupstaður átta íbúðir til ráðstöfunar. Fyrsta skóflustunga var tekin 5. október síðastliðinn og á að afhenda allar íbúðirnar í júní og júlí næsta sumar.

Fram hefur komið að byggingarnar þrjár á Akranesi verða fluttar inn frá Lettlandi í forsmíðuðum einingum. Er það fyrirtækið Modulus sem sér um framkvæmdina, en eftir því sem ég best veit var ekki leitað eftir samstarfi við fyrirtæki á Akranesi að sjá um framkvæmdirnar né heldur gerð krafa um það af hálfu bæjaryfirvalda. Ég spyr sjálfan mig hvort það verði síðan erlendir starfsmenn sem munu reisa húsin úr þessum einingum.

Það er dapurt að verkalýðshreyfingin á Íslandi sniðgangi íslenskt vinnuafl og fyrirtæki með þessum hætti. Er launakostnaðurinn á Íslandi orðinn það hár að íbúðafélag í eigu verkalýðshreyfingarinnar verði að fara með viðskiptin sín til útlanda? Þetta er mjög athyglisvert í því ljósi að forystufólk í verkalýðshreyfingunni hafa talað með þeim hætti síðustu mánuði að það sé góð innistæða hjá íslenskum fyrirtækjum að hækka laun verulega í komandi kjarasamningum. Á sama tíma velur verklýðshreyfingin að kaupa vörur og þjónustu erlendis frá, þar sem kaup og kjör eru margfalt lægri en á Íslandi. Þetta eru staðreyndir úr íslensku atvinnulífi, á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins eru að semja um kaup og kjör.

Sá er skrifar þessar línur er framkvæmdastjóri Trésmiðjunnar Akurs ehf. á Akranesi. Starfsfólk Akurs hafa framleitt á annað hundrað einingahús út um allt land og á annan tug fjölbýlishúsa á Akranesi í gegnum tíðina. Núna starfa um 20 manns hjá fyrirtækinu og er meirihluti þeirra í Verkalýðsfélagi Akraness. Af launum sem Akur greiðir starfsmönnum sínum greiðir fyrirtækið mótframlög beint til verkalýðsfélagsins. Það er 1% í sjúkrasjóð, 0,25% í orlofsheimilasjóð, 0,3 – 0,5% í starfsmenntasjóð.

Halldór Stefánsson.

Höf. er framkvæmdastjóri Akurs ehf.

Fleiri aðsendar greinar