Akranes í fararbroddi

Drífa Snædal

Akraneskaupstaður getur verið stoltur af því að ganga til samstarfs við Bjarg íbúðafélag um byggingu 33 íbúða í bænum. Það lýsir framsýni að taka þátt í þessu risavaxna verkefni til að leysa úr brýnum húsnæðisvanda og bjóða íbúðir á sæmilegum kjörum til fólks á lágum launum með því húsnæðisöryggi sem fylgir langtímaleigu.

Leigan verður hvað lægst á Akranesi af öllum þeim sveitarfélögum sem Bjarg er nú að byggja í og er það meðal annars vegna lágra gjalda og skipulags sem styður við hagkvæmni í byggingaframkvæmdum.

Í síðustu viku rituðu tveir byggingaverktakar greinar í Skessuhorn; Halldór Stefánsson framkvæmdastjóri Akurs og Þráinn E Gíslason húsasmíðameistari þar sem þeir færa byggingar Bjargs íbúðarfélags í tal. Í grein sinni fer Þráinn hörðum og mjög ósanngjörnum orðum um mig og stéttarfélögin og ég ætla að fá að leiðrétta það sem þar kom fram. Af greininni má skilja að ég hafi séð það sem sérstakan kost hversu lág laun séu í Lettlandi þar sem hluti vinnunnar við húsin fer fram. Það er ekki rétt! Það sem ég hef sagt um að flytja inn forsmíðuð hús er að þar næst mikil stærðarhagkvæmni auk þess sem húsin geta risið hraðar en ella sem kemur framtíðarleigjendum til góða.

Modular hús eins og verið er byggja á Akranesi eru ekki enn framleidd á Íslandi. Þessi byggingaraðferð hefur verið að ryðja sér rúms á Norðurlöndunum og býður uppá mikla hagkvæmni. Þrátt fyrir að húsin séu framleidd erlendis krefst verkefnið fjölda handtaka hér á landi við útbúning og frágang.

Bjarg fagnar áhuga aðila að koma að verkefnum félagsins og býður þá velkomna til fundar. Félagið er með í undirbúningi byggingu rúmlega 1.000 íbúða og munu fjölmargir verktakar koma að smíði þeirra. Bjarg er sjálfseignarstofnum og vinnur eftir lögum um almennar íbúðir. Það er settur stífur kostnaðarrammi vegna bygginganna sem reynst hefur mikil áskorun að ná.

Það er alveg ljóst að húsnæðiskreppan sem margir okkar félagsmenn upplifa á eigin skinni er bráðavandi sem verður að leysa hratt og örugglega og leitað er ýmissa leiða til að gera það. Kosturinn við félag eins og Bjarg (fyrir utan stofnframlögin frá ríkinu) er að þar má ná stærðarhagkvæmni og það er krafa að leita allra leiða við að lágmarka byggingarkostnað með nýjum leiðum og aðferðum, meðal annars einingahúsum. Þannig má ná lægri leigu og byggingartími húsanna er lágmarkaður.

Bjarg mun áfram vera í fararbroddi að leita nýrra leiða til að ná hagkvæmni og gera það í samstarfi við fjölmarga aðila hér innanlands en innlend fyrirtæki sem taka þátt í verkefnum Bjargs eru nú á fjórða tug.

Við fögnum áhuga íslenskra verktaka að koma að verkefnum á vegum Bjargs og væntum mikils af slíku samstarfi en það er forsenda að okkur takist að ná markmiðunum að byggja nokkur hundruð góðar og hagkvæmar íbúðir á næstu misserum.

 

Drífa Snædal.

Höfundur er forseti ASÍ

Fleiri aðsendar greinar